Áfangasigrar í langri baráttu

mbl.is

Raddir fólksins fagna afsögnum Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra og segja þær löngu tímabærar.

Í yfirlýsingu Radda fólksins segir að það sé fagnaðarefni þegar ein óvinsælasta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hverfi loksins frá völdum. Þessi niðurstaða hafi fengist með órofa samstöðu þjóðarinnar og sögulegum mótmælaaðgerðum.

Ástæða sé til að benda á að fyrrverandi viðskiptaráðherra hafi séð sóma sinn í að axla pólitíska ábyrgð og viðurkenna þátt sinn í efnahagslegri óstjórn fráfarandi ríkisstjórnar en fyrrverandi forsætisráðherra hverfi frá völdum nauðugur viljugur, án þess að biðja þjóðina afsökunar á axarsköftum sínum.

Þá segir að 80% þjóðarinnar hafi risið upp og sagt pólitískri spillingu og flokksræði stríð á hendur. Ljóst sé að landsmenn geti ekki sætt sig við að vanhæfir þingmenn geri enn eina atlöguna að lýðræðinu.

„Við krefjumst þess að utanþingsstjórn verði mynduð án tafar og þingmenn verði látnir axla ábyrgð. Fráfarandi ríkisstjórn var búin að gefa ádrátt um kosningar 9. maí n.k. Nú hafa mál skipast þannig að fráfarandi forsætisráðherra er búinn að skila umboði sínu og við blasir að stjórnarkreppa ríkir í landinu. Við þessar aðstæður er óásættanlegt að umboðslausir stjórnmálamenn véli með dagsetningu kosninga. Þjóðin sjálf verður að taka af skarið og ákveða réttan tíma fyrir kosningar að því tilskyldu að fyrir liggi drög að nýrri stjórnarskrá og trygging fyrir því að gamla siðspillta flokksræðið hverfi á öskuhauga sögunnar,“ segir í yfirlýsingunni.

Raddir fólksins segjast fagna brottvikningu forstjóra og stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Samtökin gagnrýna hins vegar starfslokasamning við fráfarandi forstjóra upp á liðlega tuttugu milljónir króna og segja það skilyrðislausa kröfu að forstjóri Fjármálaeftirlitsins víki tafarlaust og starfslokasamningur við hann verði ógiltur.

„Ástæðulaust er að fjölyrða um dapurlega stöðu stjórnar Seðlabankans. Vitað er að hún hefur ekkert traust landsmanna og erlendis er hún aðhlátursefni. Soldáninn á Svörtuloftum situr og situr og situr meðan þjóðinni blæðir út. Hann hefur treyst á tangarhald sitt á fráfarandi forsætisráðherra og beitt siðleysi og blekkingum til að breiða yfir eigin valdníðslu og landráð. Því verður einfaldlega ekki unað deginum lengur að gjörsamlega vanhæfur uppgjafarstjórnmálamaður véli með fjöregg þjóðarinnar. Stjórn Seðlabankans verður að víkja,“ segir í yfirlýsingu Radda fólksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert