Það var ekki málefnaágreiningur sem varð ríkisstjórninni að falli heldur krafa Samfylkingarinnar um að fá forsætsiráðherraembættið. Þetta sagði Geir H. Haarde við upphaf þingfundar í dag og áréttaði að krafa um að forsætisráðherraembættið flyttist milli flokka hefði valdið trúnaðarbresti og gæti ekki annað en leitt til stjórnarslita.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði hins vegar að þetta væri ekki rétt. Aðgerðir hafi ekki gengið nógu hratt eftir og enn hefðu ekki verið gerðar breytingar á yfirstjórn Seðlabankans. Málið snerist ekki um að Samfylkingin sem slík vildi leiða ríkisstjórnina heldur um að öflugur einstaklingur gerði það.
Geir þakkaði utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, persónulega fyrir það samstarf þeirra í ræðu sinni á Alþingi í dag. „Þar hefur engan skugga borið á. Því miður hefur skort á að hennar eigin flokksmenn hafi sýnt henni sem forystumanni þá samstöðu sem nauðsynleg er í ríkisstjórnarsamstarfi.
Ríkisstjórnin hefur unnið mikið verk við ótrúlega erfiðar aðstæður síðustu vikur og mánuði. Það gengur kraftaverki næst að hér á landi skuli vera starfhæft bankakerfi eftir hrun fjármálakerfisins í byrjun október. Vel hefur miðað í undirbúningi endurreisnar og uppbyggingar í samfélaginu. Um það bil hundrað atriði eða lagabreytingar, reglugerðarbreytingar og stjórnvaldsákvarðanir sem hafa komið til framkvæmda eða verið ákveðnar á þessum tíma. Það er heldur ekki hægt að gera kraftaverk á hverjum einasta degi. Allir sjá það en stundum stendur upp á okkur sú krafa að gera það.
Því miður hefur það nú gerst sem ég óttaðist allan tímann frá því að bankahrunið varð í byrjun október, að stjórnarkreppa myndi bætast ofan á efnahagskreppuna.
Ég skora á þingmenn alla að rísa nú undir þeirri ábyrgð sem þeim hefur verið falin af þjóðinni og búa svo um hnútana að þær viðamiklar björgunaraðgerðir sem nú eru í gangi fari ekki út um þúfur í stjórnleysi og upplausn. Ekkert okkar er mikilvægara en hagur þjóðarinnar og við verðum öll að ganga í takt næstu vikur og mánuði þar til kjósendur velja sér nýja fulltrúa.
Þetta er verkefnið sem nú blasir við okkur hér á Alþingi og við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu ekki hlaupast undan þeirri ábyrgð," sagði Geir á þingfundi í dag.