Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði eftir fund með forseta Íslands að ekki hefði verið samið um neitt milli flokks síns og Samfylkingarinnar um hugsanlega minnihlutastjórn. Hann sagðist þó telja þann kost líklegastan í stöðunni nú en lagði áherslu á að málið væri í höndum forsetans.
„Það er þó nokkuð ljóst, að það eru einkum tveir kostir sem menn hafa rætt. Það er einhvers konar þjóðstjórn eða það er minnihlutastjórn eða stjórn til vinstri," sagði Steingrímur.
Hann sagði að yfirlýsingar forustumanna fyrrum stjórnarflokka í dag ykju þó ekki bjartsýni á að þjóðstjórn allra flokka gæti orðið sterk starfhæf stjórn. Hins vegar vildi hann ekki útiloka þann kost.
Steingrímur sagði að engar viðræður, hvorki formlegar né óformlegar, hefðu farið fram í dag milli VG og Samfylkingar og sagði að það væri ekki rétt að búið væri að taka ákvarðanir í stórum dráttum um minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokks. Hann sagði að ekki stæði til að halda fundi milli flokkanna í kvöld.