Gæti birt til á næsta ári eða 2011

Jón Daníelsson.
Jón Daníelsson. mbl.is/Kristinn

Jón Daníelsson, hagfræðingur hjá London School of Economics, skrifar grein á vef breska ríkisútvarpsins BBC þar sem hann útskýrir það sem leiddi til falls íslensku ríkisstjórnarinnar í dag.

Segir hann að Íslendingar megi búast við frekari efnahagsþrengingum næstu mánuði en ef hægt verði að mynda trausta ríkisstjórn sem taki á efnahagsvandanum með trúverðugum hætti muni fara að birta til á næsta ári eða 2011. 

Jón segir að íslenska ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi á stundum virst vera einskonar klappstýrur fyrir bankana en ekki ábyrg stjórnvöld. Ríkisstjórnin hafi í upphafi afneitað ábyrgð á bankakruninu en á endanum hafi drambið orðið henni að falli. 

„Við vitum ekki hvers vegna íslenska ríkisstjórnin brást ekki við í tíma. Ef til vill var hún í afneitun og vonaði að hlutirnir myndu lagast. Eins og Íslendingar segja: Þetta reddast," segir Jón í greininni.

Hann fullyrðir, að ef íslensk stjórnvöld hefðu tekið á vanda íslenska bankakerfisins þegar í byrjun ársins 2008 hefði verið hægt að vinda ofan af bönkunum með skipulegum hætti. Fjárhagslegt tap hefði orðið minna og hugsanlegt, að sparifjáreigendur hefðu ekki orðið fyrir fyrir tjóni.  

„Augljóslega hefði staða Íslands orðið betri en hún er núna," segir Jón. 

Grein Jóns á vef BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert