Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði á Alþingi, að þjóðin hefði þegar kveðið upp sinn dóm yfir ríkisstjórninni. Nú yrði að mynda starfhæfa ríkisstjórn og verkefnin væru risavaxin.
Höskuldur sagði að strax yrði að ráðast gegn atvinnuleysi og koma þyrfti atvinnulífinu í gang.
Sagði Höskuldur að framsóknarmenn væru tilbúnir að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG falli en þá skorti umboð kjósenda til að setjast í ríkisstjórn. Hins vegar myndu framsóknarmenn axla ábyrgð í þeim efnum ef til þess kæmi.