Boðuð á fund forseta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði Ólafi Ragnari Grímssyni í gær að …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði Ólafi Ragnari Grímssyni í gær að hún væri reiðubúin að stuðla að myndun stjórnar Samfylkingarinnar með stuðningi fyrrum stjórnarandstöðu. mbl.is/Ómar

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur boðað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, og Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri grænna, á sinn fund á Bessastöðum klukkan 11.

Forseti mun að loknum þeim fundi hugsanlega ræða við fréttamenn, að því er segir í tilkynningu.

Í gær ræddi forseti Íslands við formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi eftir að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, baðst lausnar. Líkt og fram kemur í Morgunblaðinu í dag stefnir allt í vinstri stjórn. 

Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna (VG) verður að öllum líkindum mynduð í dag, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. „Það stefnir allt í vinstri stjórn,“ sagði viðmælandi Morgunblaðsins í Samfylkingunni. Viðræður milli flokkanna hófust í gærkvöldi en heimildir Morgunblaðsins herma að fulltrúar þeirra hafi rætt óformlega saman síðustu daga um mögulegt samstarf ef fyrra ríkisstjórnarsamstarf héldi ekki.

Þegar ljóst var að ríkisstjórnin væri sprungin stóð vilji VG fyrst til þjóðstjórnar. Fljótlega varð þó ljóst að slík stjórn var ekki líkleg þar sem Samfylkingin vildi að Jóhanna Sigurðardóttir leiddi hana, en Geir H. Haarde taldi að það ætti að vera fulltrúi stærsta stjórnmálaflokksins. Stjórn VG fundaði síðan í gærkvöldi um stjórnarmyndun og í kjölfarið var boðaður flokksráðsfundur klukkan 20.30 í kvöld, en hann er æðsta vald flokksins milli landsfunda. Á þeim fundi verður farið fram á samþykki fyrir nýrri ríkisstjórn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert