Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur boðað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, og Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri grænna, á sinn fund á Bessastöðum klukkan 11.
Forseti mun að loknum þeim fundi hugsanlega ræða við fréttamenn, að því er segir í tilkynningu.
Í gær ræddi forseti Íslands við formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi eftir að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, baðst lausnar. Líkt og fram kemur í Morgunblaðinu í dag stefnir allt í vinstri stjórn.
Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna (VG) verður að öllum líkindum mynduð í dag, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. „Það stefnir allt í vinstri stjórn,“ sagði viðmælandi Morgunblaðsins í Samfylkingunni. Viðræður milli flokkanna hófust í gærkvöldi en heimildir Morgunblaðsins herma að fulltrúar þeirra hafi rætt óformlega saman síðustu daga um mögulegt samstarf ef fyrra ríkisstjórnarsamstarf héldi ekki.