Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fól í dag Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, og Steingrími J. Sigfússyni að ræða saman um myndun minnihlutastjórnar. Sagðist Ólafur Ragnar hafa falið Ingibjörgu Sólrúnu að stýra þeim viðræðum.
Fram kom hjá Ólafi Ragnari að til greina kæmi að einn eða tveir einstaklingar utan þingsins gætu tekið sæti í stjórn af þessu tagi. Það myndi þó koma í ljós hver niðurstaðan verði en slík stjórn væri nálægt þeim hugmyndum, sem komið hefðu fram að undanförnu.
Forsetinn sagði, að gert væri ráð fyrir því að hann myndi ræða við Steingrím og Ingibjörgu Sólrúnu síðdegis á morgun eða á fimmtudagsmorgun um gang mála. Hefði hann óskað eftir því að viðræðurnar myndu aðeins taka nokkra daga en ekki vikur.
Ingibjörg Sólrún sagði að þau Steingrímur hefðu tekið við keflinu af forsetanum og myndu nú setjast yfir það hvort hægt væri að mynda öfluga ríkisstjórn, sem gæti orðið starfhæf fyrir helgi. Þetta myndu þau ræða í dag eða á morgun.
Steingrímur sagði að þeim hefði nú verið falið þetta verk. Mikilvægt væri að eyða óvissu í stjórnmálunum og niðurstaða af eða á þurfi að liggja fyrir sem fyrst.
Ólafur Ragnar sagði eftir fund með Ingibjörgu og Steingrími, að hans niðurstaða, eftir viðræður við formenn flokkanna í gær, hefði verið, að ekki væri grundvöllur, að svo komnu máli, til að
hefja viðræður um samstarf allra flokka, sem stundum hefur verið nefnd
þjóðstjórn. Hann bætti við, að sögulega séð hafi þó stjórn sem bar það heiti fyrir 60
árum, ekki verið stjórn allra flokka.
Hins vegar hefði komið skýrt fram, að það sé vilji Samfylkingarinnar og VG að ræða saman um myndun ríkisstjórnar sem nyti stuðnings Framsóknarflokksins. Þá hefði komið fram hjá formanni Framsóknarflokksins í gærkvöldi, að flokkurinn væri reiðubúinn til að bæði verja ríkisstjórn Samfylkingar og VG falli og stuðla að, því að hún geti komið málum gegnum þingið á árangursríkan hátt.
Einnig hefði komið fram vilji formanns Frjálslynda flokksins að eiga einhverskonar samstarf við slíka ríkisstjórn svo framarlega sem málefnagrundvöllur væri fyrir hendi.