„Samfylkingin bugaðist"

Geir H. Haarde ræðir við fréttamenn á Bessastöðum í gær.
Geir H. Haarde ræðir við fréttamenn á Bessastöðum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Síðdeg­is á sunnu­dag, á fundi Geirs H. Haar­de, for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, og Ingi­bjarg­ar Sól­rún­ar Gísla­dótt­ur, for­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, varð Geir ljóst að það stefndi í stjórn­arslit. „Þá kom fram skil­yrði um að stjórn­ar­for­yst­an flytt­ist á milli flokk­anna, það sem Sam­fylk­ing­in kall­ar verk­stjórn­ar­vald en er í dag­legu tali kallað for­sæt­is­ráðherra­embættið,“ seg­ir Geir í viðtali við Morg­un­blaðið.

– Er það þitt mat, að þið hefðuð ann­ars getað náð sam­an?

„Ég er sann­færður um að náðst hefði niðurstaða um önn­ur atriði, sem til viðræðu voru síðastliðna daga, ef ekki hefði verið sett skil­yrði af þessu tagi. Við höf­um hingað til borið gæfu til þess for­menn­irn­ir að leiða mál til lykta, komið okk­ur sam­an um og leyst öll deilu­mál.

Ég hef ekki orðið var við það fyrr en núna að það væri sér­stök óánægja í Sam­fylk­ing­unni með mína verk­stjórn í rík­is­stjórn­inni – það er nýtt. En ef það var vanda­málið, þá bauðst ég til þess í gær að ég skyldi stíga til hliðar og Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir gæti tekið við. Ég sá þá fyr­ir mér að við mynd­um bæði víkja, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og ég, og við tæki tíu manna rík­is­stjórn und­ir for­ystu Þor­gerðar Katrín­ar.

Vand­inn í þessu öllu hef­ur verið sá að Sam­fylk­ing­in er sjálfri sér sund­urþykk og hún er í grunn­inn marg­ir flokk­ar og flokks­brot, sem frá byrj­un höfðu ólíka af­stöðu til þessa rík­is­stjórn­ar­sam­starfs. Sú sem hélt þessu öllu sam­an var formaður­inn, Ingi­björg Sól­rún, en það var áber­andi að í hvert sinn sem hún var fjar­ver­andi, varð mik­ill órói í þing­flokkn­um og ann­ars staðar í flokkn­um.

Mest áber­andi varð það í síðustu viku, þegar hald­inn var fund­ur í flokks­fé­lag­inu í Reykja­vík, þar sem ýms­ir úr þingliðinu mættu, und­ir for­ystu vara­for­manns flokks­ins og for­manns þing­flokks­ins, og samþykkt var niðurstaða um að það bæri að slíta stjórn­ar­sam­starf­inu – á meðan formaður flokks­ins var er­lend­is vegna veik­inda!

Þetta er allt með ólík­ind­um og á þeim tíma­punkti var kraf­an um að skipta um stjórn­ar­for­ystu ekki kom­in fram. Það gerðist ekki fyrr en í gær. Þannig að Sam­fylk­ing­in hef­ur ekki getað staðið af sér það ástand sem skap­ast hef­ur í sam­fé­lag­inu, og bugaðist í stað þess að standa í lapp­irn­ar, og hún er eins og ég sagði í dag, í tætl­um sem stjórn­mála­flokk­ur."

Lausn í máli Seðlabanka

– Það var eft­ir því tekið að þú talaðir fal­lega um formann Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, en hún ekki eins fal­lega um þig?

„Ég vil bara segja, að ég tel hana heiðarlega mann­eskju, okk­ar sam­starf hef­ur verið með ágæt­um og ekk­ert borið á milli per­sónu­lega. Ég ætla að halda mig við það, ekki að segja annað en satt og rétt í því efni. En henni hef­ur gengið erfiðlega með sitt bak­land; það hef­ur ekki sýnt henni nauðsyn­lega sam­stöðu og ég tel uppá­kom­ur þegar hún var fjar­ver­andi lýs­andi dæmi um það. Svona myndi sjálf­stæðis­flokk­ur­inn aldrei haga sér."

– En hún tal­ar um að mál hafi strandað hjá Sjálf­stæðis­flokkn­um?

„Það er fyrst og fremst eitt mál, sem Sam­fylk­ing­in tal­ar um í því sam­bandi, því önn­ur atriði höf­um við af­greitt jöfn­um hönd­um og staðið sam­eig­in­lega að því. Það sem Sam­fylk­ing­in á við er Seðlabank­inn og yf­ir­stjórn hans. Ég bendi á að það var fyrst í gær, sem Sam­fylk­ing­in eða viðskiptaráðherra ákvað að gera breyt­ing­ar á Fjár­mála­eft­ir­lit­inu, en þó ekki fyrr en frá og með 1. mars, hvað varðar for­stjór­ann. Við höf­um rætt við Sam­fylk­ing­una um að við vild­um gera laga­breyt­ing­ar sem lúta að Fjár­mála­eft­ir­lit­inu og Seðlabank­an­um, og kanna til hlít­ar hvort rétt sé að sam­eina þess­ar stofn­an­ir á nýj­an leik. Við feng­um er­lend­an sér­fræðing til að fara yfir skipu­lagið á Fjár­mála­eft­ir­lit­inu og höf­um jafn­framt leitað ráða hjá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum um þau mál. Ég er viss um að hægt hefði verið að leiða þetta mál til lykta í fe­brú­ar­mánuði fyr­ir 1. mars, sem er dag­setn­ing­in sem val­in var gagn­vart starfs­lok­um for­stjóra Fjár­mála­eft­ir­lits­ins."

– Var sú ákvörðun tek­in upp á eins­dæmi viðskiptaráðherra?

„Það virðist vera."

– Sam­fylk­ing­in hef­ur einnig kvartað und­an því að ekk­ert miði hvað varðar und­ir­bún­ing að stjórn­ar­skrár­breyt­ing­um vegna hugs­an­legr­ar aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu?

„Þær fara nú yf­ir­leitt ekki fram fyrr en í aðdrag­anda kosn­inga. Það lá fyr­ir að ef þing­kosn­ing­ar yrðu í vor, þá yrði að gera stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar, og það stóð ekk­ert á okk­ur. Ég var með til­lögu í því efni, að fá lít­inn hóp sér­fræðinga sem ég hafði nafn­greint, til að koma með texta, í stað þss að fá full­trúa allra flokka enn einu sinni að því borði. Þannig að þetta gat ekki verið ágrein­ings­mál, að minnsta kosti ekki á þessu stigi, og sama má segja um fram­kvæmd efna­hags­áætl­un­ar­inn­ar í sam­starfi okk­ar og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins. Við ber­um ábyrgð á því

í for­sæt­is­ráðuneyt­inu og aldrei kom annað til greina en að fylgja því eft­ir af okk­ar hálfu. Og ef hér verður mynduð ný rík­is­stjórn, þá treysti ég því og vona að hvergi verði hvikað frá þeirri efna­hags­áætl­un."

Ekki vegna lands­fund­ar

– Það spurðist að stjórn­ar­flokk­arn­ir hefðu gert sam­komu­lag um upp­stokk­un á ráðherra­skip­an fyr­ir jól?

„Það er kannski ekki rétt að tala um sam­komu­lag, en við rædd­um það að skipta verk­um með nýj­um hætti í rík­is­stjórn­inni, og gera frek­ari skiplags­breyt­ing­ar í stjórn­kerf­inu. Ég var með ákveðnar til­lög­ur þar að lút­andi, meðal ann­ars um að formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar yrði fjár­málaráðherra, og við fengj­um ut­an­rík­is­ráðuneytið á móti. Síðan yrðu aðrar breyt­ing­ar á skip­an ráðuneyta. Ég tel að með þessu hefði formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar fengið mik­il tæki­færi til að fylgja eft­ir stefnu síns flokks í rík­is­fjár­mál­um og að þetta hefði verið mjög góð leið til að þétta sam­starfið á milli flokk­anna, en þessu var slegið á frest, meðal ann­ars vegna per­sónu­legra aðstæðna for­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sem all­ir höfðu að sjálf­sögðu góðan skiln­ing á. Þannig að það er rangt að það hafi staðið upp á okk­ur að gera slík­ar til­lög­ur eða ráðast í slík­ar breyt­ing­ar. Látið var að því liggja að þetta sner­ist um að fresta verk­efn­um fram yfir lands­fund Sjálf­stæðis­flokks­ins, sem hafði ná­kvæm­lega ekk­ert með þetta að gera."

– Það komu ým­is­legt upp úr dúrn­um við stjórn­arslit­in, sem ekki hafði heyrst af áður – hefði ekki þurft að upp­lýsa al­menn­ing um þetta?

„Svona stjórn­ar­sam­starf, og sam­starf tveggja formanna, bygg­ist á því að geta unnið að mál­um í trúnaði og sýnt ákveðna holl­ustu gagn­vart sjón­ar­miðum hvors ann­ars. Og í þessu máli, varðandi breyt­ing­ar fyr­ir ára­mót, var um það að ræða og ég sá ekki ástæðu til að segja op­in­ber­lega frá því, þó að það hefði ef­laust getað komið mér vel á þeim tíma. Það verður að vera trúnaður um mál á viðkvæmu stigi."

– Kom ekki til greina að upp­lýsa um það þegar mót­mæl­in urðu há­vær­ari síðustu viku?

„Ég vil halda þess­um mót­mæl­um al­veg fyr­ir utan þessa at­b­urðarás. En auðvitað var þetta allt mjög óvenju­legt, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar var fjar­ver­andi í tvær vik­ur og það logaði allt í ill­deil­um á meðan. Við vor­um ekki í stakk búin til að koma með mikl­ar til­kynn­ing­ar meðan ástandið var svona – svo breytt­ust aðstæður hjá mér og Sjálf­stæðis­flokkn­um fyr­ir síðustu helgi."

– Hvað tek­ur nú við?

„Af okk­ar hálfu ligg­ur fyr­ir að við erum til­bú­in í Sjálf­stæðis­flokkn­um að halda áfram að koma að stjórn lands­ins og mun­um ekk­ert hlaupa frá þeim verk­efn­um ef sú staða mynd­ast að þörf er fyr­ir okk­ar krafta.

Við erum búin að leggja drög að fram­kvæmd efna­hags­áætl­un­ar­inn­ar, sem þegar er byrjað að vinna eft­ir. Það er ým­is­legt já­kvætt framund­an þó að ástandið sé erfitt, ört minnk­andi verðbólga og lækk­andi vext­ir í far­vatn­inu og góðar horf­ur varðandi viðskipta­jöfnuð og gjaldæris­flæði inn í landið. En það eru auðvitað mik­il og flók­in verk­efni framund­an, eins og að létta gjald­eyr­is­höft­um og skjóta styrk­um stoðum und­ir bank­ana, svo við get­um veitt fyr­ir­tækj­um nauðsyn­lega þjón­ustu og spornað við at­vinnu­leysi, að ljúka end­ur­fjármögn­un og ná sam­komu­lagi við er­lenda lán­ar­drottna, grípa til ráðstaf­ana til að koma til móts við heim­ili í vanda, og svo fram­veg­is.

Þetta eru gríðarlega mik­il verk­efni sem þarf að ráðast í, en búið er að leggja und­ir­stöðuna í flest­um til­vik­um og sumt er þess eðlis að ekki er ætl­ast til þess að mál­in séu kom­in lengra. Við erum búin að vinna mjög öt­ul­lega, hörðum hönd­um, al­veg frá því í októ­ber, að því að koma okk­ur út úr banka­hrun­inu, en það er ekki til þess ætl­ast að gert sé eitt krafta­verk á dag í þeim efn­um, og það mun koma í ljós í nýrri rík­is­stjórn að hún hef­ur ekki slík ráð und­ir rifi hverju."

Ekki fram í vor


– Þið hafið boðist til þátt­töku í þjóðstjórn og gerið kröfu um for­ystu?

„Já, það er eðli­legt, þegar um er að ræða stjórn margra flokka, að stærsti flokk­ur­inn gegni for­ystu."

– Kæmi til greina að fá utanþings­stjórn?

„Nei, ég tel að það væri mjög óheppi­legt og myndi lýsa upp­gjöf af hálfu stjórn­mála­flokk­anna í land­inu. En hvað varðar stjórn­ar­for­ystu, þá má velta öll­um hlut­um fyr­ir sér."

– Veik­indi þín hafa verið nefnd í rök­stuðningi fyr­ir stjórn­arslit­un­um, að þú haf­ir ekki heilsu til að gegna áfram embætti for­sæt­is­ráðherra í erfiðu ár­ferði?

„Það var greint í mér lítið en ill­kynja mein sem þarf að fjar­lægja. Meinið, sem fannst fyr­ir til­vilj­un, er á byrj­un­arstigi og því á að vera hægt að fjar­lægja það með spegl­un­araðgerð. Slík aðgerð er ekki fram­kvæmd hér á landi og því þarf ég að fara utan í nokkra daga vegna þessa. Um aðrar fjar­vist­ir af þessu til­efni verður von­andi ekki að ræða.

Þannig að eins og ég sagði á blaðamanna­fund­in­um í Val­höll síðastliðinn föstu­dag, þá eru bata­horf­ur ágæt­ar og ég mun hafa óskert starfsþrek næstu mánuði hið minnsta. Og ég vil gjarn­an koma því að, að ég er lík­am­lega í mjög góðu ásig­komu­lagi að öðru leyti og stunda lík­ams­rækt af krafti.

Hitt er annað mál, að fyrst lands­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins stend­ur fyr­ir dyr­um og kosn­ing­ar eru framund­an, þá bar mér að huga að lang­tíma hags­mun­um Sjálf­stæðis­flokks­ins. Í ljósi þeirr­ar óvissu sem óhjá­kvæmi­lega fylg­ir meini sem þessu, ákvað ég að eðli­leg­ast væri að ég gæfi ekki kost á mér áfram til for­mennsku í flokkn­um. Með því móti er jafn­framt skapað svig­rúm fyr­ir kyn­slóðaskipti á stóli for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, en þeir þrír for­menn sem setið hafa allt frá 1983 eru all­ir á líku reki. Það má gera ráð fyr­ir að fólk sem er 15 til 20 árum yngra hasli sér völl á þess­um vett­vangi."

– En hyggstu bjóða þig fram til Alþing­is í vor?

„Ég hef ekki gert ráð fyr­ir því. Það er rök­rétt að hætta þá al­veg."

– Það hlýt­ur að vera ákveðinn létt­ir að hverfa á braut úr for­sæt­is­ráðuneyt­inu eft­ir það sem á und­an er gengið?

„Per­sónu­lega er það kannski létt­ir, á viss­an hátt, en maður er bú­inn að vera svo á kafi í þess­um verk­efn­um, og þekk­ir vanda­mál­in orðið svo vel, að ég hef talið það skyldu mína að hafa for­ystu um að leysa vanda­mál­in. Og talið að það væri ábyrgðar­hluti af minni hálfu að stökkva frá því með ein­hverj­um hætti. Það höf­um við ekki gert. Það er Sam­fylk­ing­in sem ákveður að setja okk­ur úr­slita­kosti í þessu sam­starfi."

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert