„Er þetta óvinsælasti maðurinn á Íslandi?" segir í fyrirsögn á vef Times og er þar vísað til Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra. Kemur fram að ríkisstjórn Íslands hafi fallið undir hávaða frá skeiðum og pönnum. Það sé hins vegar einungis fyrsta vígið sem falli að kröfu mótmælenda, næst sé það Davíð Oddsson.
Segir blaðamaður Times að það sé skiljanlegt að Davíð verði látinn víkja þar sem hann hafi haft nægar upplýsingar undir höndum um að eitthvað væri að á Íslandi, að fjármálageirinn væri orðinn stjórnlaus.
Segir greinarhöfundur að Davíð hafi virt skilaboðin að vettugi, kannski vegna forsögu sinnar sem hin norræna táknmynd Margaretar Thatcher.
Fjallað er um vináttu Davíðs og Geirs H. Haarde, fráfarandi forsætisráðherra, og það mikla vald sem Davíð hafði yfir Sjálfstæðisflokknum. Náið samband milli ráðherra og seðlabankastjóra hafi ávallt komið upp í efnahagskreppum ríkja, allt frá Eystrasaltsríkjunum til Balkanskagans.
Greinin í heild