Ásta: VG hræðist að grasrótin leiti annað

Ásta Möller, alþingismaður
Ásta Möller, alþingismaður mbl.is

Ásta Möller, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, segir VG vilja kosningar til Alþingis sem fyrst til að koma í veg fyrir að ný framboð nái fram að ganga, því flokkurinn hræðist að grasrótin leiti „á nýrri og ferskari mið“ en VG. Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu þingmannsins.

Ásta skrifar:

„Samkvæmt fréttum er dagsetning alþingiskosninga í vor eitt erfiðasta úrlausnarefnið í stjórnarmyndunarviðræðum minnihlutastjórnar VG og Samfylkingar.

Ástæðan er augljós. Þar rekast á ólíkir hagsmunir.

VG vill kosningar sem fyrst til að koma í veg fyrir að ný framboð nái að festa sig.

Ástæðan er að VG hræðist að grasrótin, svokallaða, óánægjuliðið, sem að öðrum kosti styddi VG, leiti á nýrri og ferskari mið, í ný framboð (varla geta Ögmundur og Steingrímur talist nýir og ferskir!).“

Ásta segir það jafnframt gegn hagsmunum VG að efnahagsráðstafanirnar sem þegar hafi verið ákveðnar fái svigrúm til að bera ávöxt og skili sér m.a. í  styrkingu krónunnar, minnkun verðbólgu og vaxtalækkunum. „Merki um það má reyndar þegar sjá í fréttum dagsins.  Verðbólgan er á niðurleið, komin niður í 7,2% á mánaðargrunni, sem er sú minnsta frá í janúar á síðasta ári og krónan hefur styrkst um 6% frá síðasta fimmtudegi.  Í desember s.l.  jafngilti hækkun vísitölunnar um 20%  og í nóvember um 23%.  Að óbreyttu munu þessir þættir koma skýrar fram eftir því sem líður á vorið. Getur þetta verið ástæðan fyrir því að VG vilji kosningar sem fyrst.“

Ásta segir að Samfylkingin vilji kosningar eins seint í vor og flokkurinn komist upp með, því hann þurfi meiri tíma til að ná vopnum sínum. Fylgi flokksins sé 17-19% en hafi verið 33-36% í lok október. „Stuðningur við meginbaráttumál þeirra, aðild að ESB, er minnkandi, 40% en var 70% í október. Hún býr einnig við alvarlegan forystuvanda.  Öfugt við VG þarf hins vegar Samfylkingin að geta sýnt fram á árangur í efnahagsmálum,  sem þeir örugglega vilja merkja nýju stjórnarsamstarfi. Hún veit hvað er í kortunum og vill ná því inn áður en til kosninga kemur. Til þess þurfa þeir hins vegar lengri tíma. Kratar vilja ekki síst gefa formanni sínum svigrúm til að ná sér á strik eftir veikindin svo hann geti leitt kosningabaráttuna.“

Eitt er víst, segir Ásta; að ný ríkisstjórn kemst ekki hjá kosningum í vor. „Nýr formaður Framsóknar, sem hefur lofað nýrri stjórn hlutleysi mun sjá til þess.  Hann vill auðvitað bæði komast á þing og ná inn fylgisaukningu í kjölfari forystuskipta í flokknum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka