Guðmundur: Stefnir á fyrsta sætið í NV-kjördæmi

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson mbl.is

Guðmundur Steingrímsson hefur ákveðið að sækjast eftir 1. sæti á lista framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Þetta kemur fram á fréttavef Feykis. Guðmundur gekk nýverið til liðs við Framsóknarflokkinn en hann var varaþingmaður Samfylkingarinnar á yfirstandandi kjörtímabili.

Guðmundur er sonur Steingríms Hermannssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins.


„Ég er ósáttur við ríkisstjórnina og hef talið að atburðarás undanfarinna mánaða hafi verið með þeim hætti að Samfylkingin hefði ekki átt að skrifa undir hana. Það stríðir gegn því sem ég hef talið vera grundvallarhugsjónir og aðferðir Samfylkingarinnar,“ sagði Guðmundur í samtali við Morgunblaðið fyrr í mánuðinum þegar hann ákvað að ganga til liðs við framsókn.

„Það eru mörg spennandi og aðkallandi verkefni í kjördæminu, t.d. hvað varðar aukna verðmætasköpun í matvælaiðnaði. Atburðir í efnahagsmálunum undanfarið hafa rækilega leitt í ljós að meiri tekjuöflun og fjölbreytt atvinnuuppbygging skiptir ekki bara máli fyrir kjördæmið sem slíkt heldur þjóðina alla. Nú þarf að bretta upp ermar,” segir Guðmundur Steingrímsson í samtali við Feyki.

Aðspurður segist Guðmundur hafa miklar og sterkar tengingar inn í kjördæmið. Faðir hans og afi hafi verið þingmenn fyrir vestfirði og þangað eigi hann sterkar rætur. Þá dvelji hann löngum í Borgarfirði og unnunsta hans sé af Snæfellsnesi að ógleymdum ættartengslum hans í Skagafjörðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert