Eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur MBL Sjónvarpi.
Samfylkingin tekur vel í þá hugmynd VG að fækka ráðuneytum en ekkert liggur þó fyrir í því efni. Jóhanna Sigurðardóttir sagðist í samtali við fréttamenn í Alþingishúsinu síðdegis gera ráð fyrir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir myndi setjast í nýja ríkisstjórn en veikindi Ingibjargar Sólrúnar hafa valdið óvissu í því efni. Hún vildi ekkert segja um skiptingu ráðherraembætta annað en það að verið væri að undirbúa verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar og þau mál væru ekki komin á dagskrá.
Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur nafn Gylfa Magnússonar prófessors komið upp í tengslum við viðskiptaráðherraembættið en þangað vilja flokkarnir kalla til ráðherra utan þings. Þá hafa komið upp hugmyndir um að Már Guðmundsson verði næsti seðlabankastjóri en hann starfar nú hjá Alþjóðagreiðslubankanum í Basel í Sviss. Þá hefur Vilhjálmur Bjarnason, lektor, hefur verið nefndur í tengslum við Fjármálaeftirlitið.
Meira á MBL sjónvarpi.