Kerfið var rotið

Álfheiður Ingadóttir.
Álfheiður Ingadóttir.

„Það er enginn að segja að þetta eigi að vera auðvelt. Íslenska fjármálakerfið var rotið og spillt og gríðarlega flókið, til þess fallið að ekki væri hægt að koma höndum yfir eignir, þannig að allar aðgerðir til þess að nálgast þessar eignir verða erfiðar, það er óhjákvæmilegt,“ segir Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Flokkurinn hyggst nú fylgja eftir frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi þann 25. nóvember síðastliðinn um kyrrsetningu eigna fyrrverandi eigenda og stjórnenda bankanna. Ýmsir hafa bent á að erfitt væri að framfylgja þessu, m.a. þar sem eignanet þessara manna og eignarhaldsfélaga sé flókið bæði hérlendis og erlendis.

Þá hefur því verið haldið fram að frumvarpið standist ekki stjórnarskrána. Álfheiður bendir á að sama gagnrýni hafi beinst gegn neyðarlögunum og þetta sé hugsað sem viðbót við þau lög. „Þetta eru sömu rök og þá er nákvæmlega því sama til að svara, að þetta eru óvenjulegar aðstæður sem krefjast óvenjulegra lausna.“

Álfheiður leggur áherslu á að ekki sé um eignaupptöku að ræða heldur tímabundna aðgerð á meðan rannsókn fari fram. Eftir að búið sé að kyrrsetja eignir hljóti það að vera sameiginlegt hagsmunamál þess sem á eignina og yfirvaldsins að rannsókninni ljúki sem fyrst en dragist ekki. Eigninni verði svo skilað ef ekkert saknæmt sannast.

Hún bendir auk þess á að í nágrannalöndunum séu ýmsar víðtækar kyrrsetningarheimildir og fordæmi þess að þeim sé beitt. Hún lítur svo á að með þessu sé verið að tryggja réttarstöðu skattgreiðenda, gagnvart þeim sem hafi „sópað til sín eignum og með skipulögðum hætti flutt í skattaskjól úr landinu, bæði fyrir hrunið og að því er manni sýnist líka eftir hrunið.“


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert