Að minnsta kosti tvö ný framboð fyrir komandi alþingiskosningar, sem væntanlegar eru með vorinu, eru nú í burðarliðnum. Neyðarstjórn kvenna hefur boðað til stofnfundar nýrrar stjórnmálahreyfingar kvenna í kvöld kl. 20 á Hallveigarstöðum og búist er við því að stofnfundur ýmissa grasrótarhreyfinga um lýðræðisumbætur, sem ákveðið hafa að vinna saman að framboði, sé væntanlegur á allra næstu dögum.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu á mánudag funduðu fulltrúar grasrótarhreyfinga um lýðræðisumbætur sl. sunnudag. Að sögn Hallfríðar Þórarinsdóttur, fundarstjóra á umræddum fundi, var markmiðið með honum að kanna hvort hægt væri að finna samnefnara þeirra mörgu hreyfinga, sem talað hafa fyrir lýðræðisumbótum að undanförnu, og sameina kraftana.
Að sögn Bryndísar Bjarnason, starfandi talskonu Neyðarstjórnar kvenna, verður á fundinum kosin formleg stjórn samtakanna auk þess sem kröfulisti og samfélagssáttmáli neyðarstjórnarinnar verða lagðir fram. Segir hún stefnt að því að bjóða fram í öllum kjördæmum, en ekki er byrjað að stilla upp framboðslistum. Tekur hún fram að stefnt sé að því að hafa eins mikla breidd á framboðslistum og hægt sé.