Hallur Magnússon býður sig fram fyrir Framsóknarflokkinn

Hallur Magnússon
Hallur Magnússon

Hallur Magnússon hefur ákveðið að bjóða sig fram í eitt af efstu sætum á framboðslista Framsóknarflokksins í öðru af tveimur kjördæmum Reykjavíkur fyrir komandi Alþingiskosningar.

Hallur segir spennandi tíma framundan. Krafa þjóðarinnar um breytingar og beinna lýðræði sé áberandi og það sé í anda þess sem hann hafi lagt áherslu á í gegnum tíðina.

Hallur hefur tekið þátt í starfi Framsóknarflokksins í rúman aldarfjórðung. Hann segir grundvallarhugsjónir og stefnu Framsóknarflokksins hafa gegnum tíðina fallið að hugmyndafræði sinni en hann hafi verið ófeiminn við að gagnrýna það sem honum hafi fundist ámælisvert í framkvæmd grundvallarstefnu flokksins.

„Á sögulegu  flokksþingi Framsóknarflokksins fyrr í þessum mánuði var nýtt upphaf markað og nýjar línur lagðar. Það er mitt mat að afar vel hafi tekist til og að framtíð Framsóknarflokksins sé björt undir ferskri forystu Sigmundar B. Gunnlaugssonar sem vakið hefur von Íslendinga um nýja og sanngjarnari tíma í íslenskum stjórnmálum. Ég hef því ákveðið í samráði við fjölskyldu mín að bjóða mig fram í eitt af efstu sætum á framboðslista Framsóknarflokksins í öðru af tveimur kjördæmum Reykjavíkur fyrir komandi Alþingiskosningar,“ segir Hallur í yfirlýsingu sinni.

Hann segir ákvörðunina tekna að vel yfirlögðu ráði og tvennt hafi einkum ráðið henni.

„Í fyrsta lagi eru gríðarstór verkefni framundan og það er bjargföst trú mín að Framsóknarflokkurinn geti gengt lykilhlutverki við endurreisn íslensks efnahagslífs. Þar er ég tilbúinn að ljá mína krafta. Í öðru lagi hafa ýmsir einstaklingar jafnt inn flokks sem utan hvatt mig til að fara fram.  Þær hvatningar réðu ekki úrslitum en höfðu vissulega áhrif.  Ég mun kynna mig og helstu baráttumál betur á næstu dögum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka