„Sjálfstraust í litlu hófi“

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræða við fjölmiðlamenn.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræða við fjölmiðlamenn. mbl.is/Árni Sæberg

Væntanlegir oddvitar nýrrar ríkisstjórnar, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, sátu saman í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar frá 1988 til 1991. Með þeim í stjórn var Ólafur Ragnar Grímsson núverandi forseti Íslands, sem komið hefur að stjórnarmynduninni í krafti síns embættis og bíður nú á Bessastöðum eftir því að geta skipað nýja ríkisstjórn.

Í ævisögu Steingríms Hermannssonar, sem Dagur B. Eggertsson ritaði, og kom út í þremur bindum 1998-2000, er talsvert miklu plássi eytt í þessa ríkisstjórn. Steingrímur segir að styrkurinn í stöðunni hafi verið sá, að ríkisstjórnin hafi áreiðanlega verið ein sú best skipaða í Íslandssögunni. Í henni hafi verið einvalalið. „Gallinn á gjöf Njarðar var hins vegar að þeir áttu það nánast allir sameiginlegt að hafa sjálfstraust í litlu hófi og leggja líf og sál í stjórnmálin. Þetta var mér umhugsunar- og áhyggjuefni. Stjórnmálamenn af þessari gerð eru oft hörundsárari og hefnigjarnari en aðrir,“ segir Steingrímur. Niðurstaða hans hafi verið sú að ríkisstjórnin myndi ekki lifa lengi nema menn tengdust persónulegum böndum og leyndu engu hver fyrir öðrum. Hlutverk hans hafi ekki síst falist í því að tryggja góðan anda.

Hann segir jafnframt að stór hluti vinnuvikunnar hafi farið í að miðla málum milli ráðherra Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins.

Rauk af fundum og skellti hurðum

„Þótt ég hafi starfað með ýmsum ráðherrum sem hafa staðið fast á sínu stenst enginn þeirra samanburð við Jóhönnu,“ segir Steingrímur. „Hún rauk af fundum og skellti hurðum. Ég hélt stundum að hún væri á leið úr stjórninni. Ef skera átti niður í hennar málaflokki stóð allt fast. Þetta gat tekið á taugarnar enda vandséð að rök væru fyrir því að félagsmálin væru eini málaflokkurinn sem ætti ekki að herða sultarólina. Sló stundum heiftarlega í brýnu milli Ólafs Ragnars og Jóhönnu vegna þessa.“ Steingrímur segir að það hafi ekki verið á margra vitorði að Jóhanna hafi lagt sig fram við að halda góðu sambandi. Hún hafi oft hringt og haft á orði við Eddu Guðmundsdóttur eiginkonu Steingríms að auðveldara væri að ná í Steingrím en Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, sem þá var formaður Alþýðuflokksins, flokks Jóhönnu.

Steingrímur J. Sigfússon fær einnig góða einkunn hjá nafna sínum forsætisráðherranum. „Steingrímur J. Sigfússon var yngstur ráðherranna. Hann var aðeins 33 ára þegar hann settist í ráðherrastól. Hann er íþróttamaður ágætur, lipur í hreyfingum, rauður yfirlitum, skeggjaður, skýrmæltur og fornyrtur,“ segir Steingrímur í ævisögu sinni. „Mér þótti Steingrímur standa sig vel í embætti landbúnaðarráðherra. Hann var atorkusamur og iðinn, fylginn sér og tryggur stuðningsmaður landsbyggðarinnar.“

Steingrímur segir að nafna hans hafi tekist vel að brúa bilið milli sjónarmiða bænda og neytenda. „Þetta breytti þó ekki því að þegar Jón Baldvin var í ham hafði hann iðulega í heitingum í garð landbúnaðarkerfisins. Þegar sá gállinn var á honum deildi hann hart á Steingrím. Landbúnaðarráðherrann lét ekkert eiga sinni hjá sér í því efni. Til að lækka hitastigið í samskiptum þeirra hafði ég það til siðs að minna Steingrím J. góðfúslega á að taka ekki of mikið mark á Jóni Baldvin þegar landbúnaðarmálin væru annars vegar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert