„Ég óska stjórninni alls hins besta og vona að hún komi sem flestu í verk. Þetta er skammur tími en það er alveg deginum ljósara að það sem er mest áríðandi fyrir hana er að hefja endurreisn atvinnulífsins af því það verður aldrei nóg á það minnt að til þess að endurreisa heimilin þarf að endurreisa atvinnulífið. Ég held að ef hún forgangsraðar rétt þessi stjórn að þá geti hún náð árangri," segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), þegar hann er inntur álits á nýmyndaðri ríkisstjórn.
Hann hlýddi á ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar ráðherraskipanin var kynnt á Hótel Borg í dag, og veitti því athygli að ekki var minnst á vaxtastigið.
„Þetta er svo sem allt gott og blessað sem hún taldi upp en ég hjó eftir því að hún minntist ekki á það sem verður að teljast mest aðkallandi af öllum aðgerðum, hvort sem það er fyrir heimili eða fyrirtæki, það er, að hafin verði lækkun vaxta sem fljótt sem verða má.
Það er sú aðgerð sem mun strax hafa áhrif til bóta fyrir atvinnulífið og þar með fyrirtækin."
Andrés segir það hafa komið í ljós samskiptum SVÞ og fráfarandi ríkisstjórnar að dagsetningin 12. febrúar, þegar stefnt er að því að fram fari úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þeim aðgerðum sem gripið hafi verið til eftir að lánið frjá sjóðnum var veitt, hafi vofið yfir henni „eins og snara".
Menn hafi „óttast dagsetninguna mjög".
Inntur eftir þeirri yfirlýsingu Jóhönnu að ekki yrði hvikað frá samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sagði Andrés það „mjög mikilvægt".
Tjáir sig ekki um Steingrím
Spurður um afstöðu SVÞ til þess að Steingrímur J. Sigfússon taki við lyklavöldum í fjármálaráðuneytinu segir Andres samtökin „ekki hafa fyrirfram mótaðar skoðanir á persónum".
Hann viðurkennir hins vegar að hann sé sáttur við skipan Gylfa Magnússonar hagfræðings í embætti viðskiptaráðherra.
„Ég þannig lagað fagna því. Ég ber út af fyrir sig ágætt traust til Gylfa. Það lendir á honum þá að endurreisa og skipa nýja stjórn og nýjan forstjóra hjá fjármálaeftirlitinu sem er mjög mikilvægt og þolir ekki bið.
Þetta embætti ásamt Samkeppniseftirlitinu er að mínu mati mikilvægustu stofnanirnar á Íslandi í dag."
Óánægður með vextastefnu Seðlabankans
Andrés hefur eindregna skoðun á vaxtastefnu Seðlabankans.
„Okkur hefur ekki frekar en öðrum í atvinnulífinu hugnast stefna Seðlabankans í vaxtamálum undanfarna mánuði."
Hann segir að skapa þurfi forsendu fyrir eðlilegu jafnvægisgengi, jafnframt því sem búa þurfi til bankakerfi sem „hafi burði til að þjóna atvinnulífinu". „Á það hafi skort allt frá því hrunið varð."
„Við höfum haldið uppi gagnrýni á þessa þætti undanfarna fjóra mánuði án þess að hlustað hafi verið á margendurteknar yfirlýsingar okkar og kröfur um aðgerðir í þessa veru," segir Andrés, sem kveðst líta svo á að styrkingin á gengi krónunnar sé það eina jákvæða sem hafi verið að gerast síðustu dagana.
Samtök verslunar og þjónustu vilji sjá að gengisvísitala verði á milli 150 og 170, sem „sé það sem stefna beri að", en hún er nú rúmlega 194.
Gera þarf upp kröfur upp á 450 milljarða króna
Hann vísar því næst til úfrágenginna krafna.
„Það er enn ósamið við eigendur jöklabréfa og annarra krafna vegna innistæðu bréfa, sem eftir því sem okkur er sagt eru upp á 450 milljarða. Það liggur held ég fyrir að það er ekki búið að skapa forsendur fyrir myndun jafnvægisgengis og þar með afnámi gjaldeyrishaftanna fyrr en að búið er að leysa úr þeim vanda.
Það er búið að segja okkur núna mjög lengi, allt frá því ég vil segja í nóvember, að unnið sé að viðræðum við eigendur þessara krafna um það sem er stundum kallað skipulagt undanhald, að þessir fjármunir fari ekki í einum vettvangi úr landi þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin.
Okkur er farið að lengja eftir því að niðurstaða komist í þeirra viðræður [...] Þetta er að okkar mati forsenda fyrir því að það sé hægt að gefa gjaldeyrisviðskipti algjörlega frjáls og þar með skapa forsendur fyrir að jafnvægisgengi myndist.“