Í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eru áform sem Frjálslyndi flokkurinn (FF) mun geta tekið undir, að mati Guðjóns Arnars Kristjánssonar formanns Frjálslynda flokksins. Hann sagði eftir að sjá hvernig atriðin í fremur almennt orðaðri verkefnaskrá verði útfærð.
Guðjón Arnar hefði viljað sjá skýrari stefnu í verkefnaskránni um sjávarútvegsmálin og hvernig menn hugsi sér að liðka fyrir þeim. Einnig hefði hann viljað sjá viðbrögð við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi úthlutun aflaheimilda þannig að aðgangur að kerfinu verði rýmkaður. „Við hefðum viljað fara í það á fullri ferð að opna það með einhverjum hætti hvernig ætti að leigja aflaheimildir til þeirra sem vilja gera út. Ekki bara að marka þeim forgang sem hafa fengið þetta á liðnum árum. Þar hefðum við viljað sjá virkilegar áherslur.“
„Við í Frjálslynda flokknum höfum lýst því yfir að það þurfi að taka mjög ákveðið á vanda heimilanna svo menn séu ekki að missa þau í gjaldþrot í miklum mæli. Það mun enginn hagnast á því,“ sagði Guðjón Arnar.
Hann sagði FF alltaf hafa verið hlynntan því að ákvæði verði sett í stjórnarskrána um þjóðareign á auðlindum, líkt og stefnt er að í verkefnaskránni. Fulltrúar FF hafi verið þeirrar skoðunar í stjórnarskrárnefndinni á sínum tíma þótt ekki hafi náðst sátt um það atriði þar.„Ég held að það sé nauðsynlegt að skrá þar mjög skýrum stöfum hvernig við lítum á auðlindirnar okkar, að það sé ekki umsemjanlegt að hleypa þeim frá sér,“ sagði Guðjón Arnar.
Ríkisstjórnin hefur skamman tíma til stefnu. Guðjón Arnar sagði að Frjálslyndi flokkurinn muni ekki þvælast fyrir og örugglega styðja góð mál. „Við erum ekki búnir að sjá útfærslu á neinu þessu, þetta er sagt með því fororði. En það var orðið bráðnauðsynlegt að koma á ríkisstjórn í landinu. Við lítum svo á að það hafi verið skylda allra alþingismanna og verði að koma löggjöfinni þannig fyrir að þjóðin komist sem best frá þessu tímabili.“
Guðjón Arnar taldi full mikið í lagt að segja að haft hafi verið samráð við hann í stjórnarmyndunarviðræðunum, eins og fram kemur í formála verkefnaskrár ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. „Á fyrstu stigum málsins var ég upplýstur um það. Ég fékk aldrei að sjá þessi plögg í vinnslu eða leitað álits míns á einstökum atriðum.“
Guðjón kvaðst hafa nefnt sjávarútvegsmálin á fyrsta fundinum en sjá lítið af þeim í verkefnaskránni, „enda var ég ekki í neinu samráði við þá,“ sagði Guðjón. Hann taldi réttara að segja að hann hafi gefið þeim sem að stjórninni standa upplýsingar á fyrstu stigum málsins. Síðan þegar málið var svo til búið hafi verið farið yfir það.