Guðbjartur verður forseti Alþingis

„Þetta er krefjandi verkefni, sérstaklega af því að við erum með minnihluta í stjórn. Það reynir meira á samninga nú en oft áður. Ég hlakka til að glíma við þetta,“ segir Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmis, verðandi forseti Alþingis.

Guðbjartur segist taka við góðu búi að mörgu leyti í sambandi við stjórn þingsins en hann tekur við forsetaembættinu af Sturlu Böðvarssyni, 1. þingmanni Norðvesturkjördæmis.

„En nú reynir á því umhverfið er annað og það gerir öðruvísi kröfur þannig að það er mjög spennandi. Verkefni okkar hlýtur náttúrulega að vera það að þingið fari að vinna meira að málum sameiginlega. Það er óskandi að menn leggist á eitt við að leysa úr málum, það er verkefni okkar og vonandi eiga nú allir flokkar það markmið að ná fram úrbótum, bæði fyrir fyrirtæki og heimili. Það er okkar stóra verkefni að koma málum þannig fyrir að við komum til móts við kröfurnar um aukið lýðræði og breytingar. Ég er frekar bjartsýnn og ég held að megi treysta á það að menn standi saman og falli ekki í þá freistni að fara að flytja kosningabaráttuna inn í þingið,“ segir Guðbjartur Hannesson, verðandi forseti Alþingis.

Guðbjartur Hannesson er á fimmtugasta og níunda aldursári. Hann var fyrst kjörinn á Alþingi vorið 2007. Hann hefur síðan verið formaður félags- og tryggingamálanefndar og á að auki sæti í fjárlaganefnd og menntamálanefnd. Þá er hann fulltrúi í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Guðbjartur er kvæntur Sigrúnu Ásmundsdóttur og eiga þau tvær dætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert