Ísland er í sárum eftir nýfrjálshyggjuna

mbl.is/Ómar

„Í dag yfirgefur nýfrjálshyggjan Stjórnarráðið. Við tökum við gríðarmiklum erfiðleikum, við erfum þá frá þeirri hugmyndafræði sem leikið hefur Ísland grátt. Ísland er í sárum eftir nýfrjálshyggjuna,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármála-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra þegar ný ríkisstjórn Samfylkingar og VG var kynnt.

Steingrímur segir engan vafa leika á að ný ríkisstjórn marki tímamót. íslenska þjóðin standi á einum allsherjar tímamótum.

„Þetta er í fyrsta lagi alger tímamóta ríkisstjórn hvað varðar stöðu jafnréttismála á Íslandi eins og sést m.a á því að ég er eini karlinn hér við þetta borð. Við gleðjumst yfir því og við óskum okkur öllum til hamingju með það og íslensku þjóðinni, að ekki bara leiðir nú kona ríkisstjórn í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins, heldur eru hlutföll kynjanna algerlega jöfn. Og ég verð að segja að það er skemmtileg tilviljun fyrir mig að lenda inni í svona ríkisstjórn sem formaður í jafnréttisnefnd Evrópuráðsins,“ sagði Steingrímur.

En tímamótin eru ekki síður mikil vegna þess að í dag lýkur tæplega 18 ára valdaskeiði Sjálfstæðisflokksins á Íslandi, sagði Steingrímur.

„Þetta eru líka mikil hugmyndafræðileg tímamót. Og í dag yfirgefur nýfrjálshyggjan stjórnarráð Íslands. Og aðrir tímar og aðrar áherslur og annað gildismat tekur við. Við erum okkur vel meðvituð um það að við tökum við erfiðu verkefni. Við tökum við gríðarmiklum erfiðleikum í íslenskum þjóðarbúskap, íslensku atvinnulífi og hvað varðar íslenskt samfélag, heimili og alla stöðu. Við erfum þetta frá þeirri hugmyndafræði sem yfirgefur stjórnarráðið í dag og hefur leikið Ísland  grátt.
Ísland er í sárum eftir langt valdaskeið nýfrjálshyggjuaflanna,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Hann sagði ríkisstjórnina rúma 80 daga til að gera allar þær ráðstafanir sem mögulegt er til að koma samfélaginu í gegnum erfiðleikana og leggja grunn að betri framtíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka