Lyklaskipti í kvöld

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir afhendir Jóhönnu Sigurðardóttur lyklavöld í forsætisráðuneytinu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir afhendir Jóhönnu Sigurðardóttur lyklavöld í forsætisráðuneytinu. mbl.is/Árni Sæberg

Ráðherrar í fráfarandi ríkisstjórn Geirs H. Haarde afhenda ráðherrum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lyklavöld að ráðuneytum í kvöld. Jóhanna tók við lyklavöldum í forsætisráðuneytinu nú fyrir stundu.

Jóhanna tók við lyklunum úr hendi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, í fjarveru Geirs Haarde, sem flaug til Hollands í dag vegna læknisaðgerðar.

Steingrímur J. Sigfússon var væntanlegur í fjármálaráðuneytið til að taka þar við af Árna M. Mathiesen. Þá afhendir Einar K. Guðfinnsson Steingrími lyklavöld að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu í kjölfarið.

Ragna Árnadóttir, ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins tekur við öllum völdum þar þegar hún tekur við ráðherrastöðunni af Birni Bjarnasyni.

Björgvin G. Sigurðsson afhendir Gylfa Magnússyni lyklavöld í viðskiptaráðuneytinu en Björgvin sagði af sér ráðherradómi fyrir réttri viku.

Katrín Jakobsdóttir fer á fund Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem eftirlætur henni menntamálaráðuneytið og Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra tekur við lyklavöldum af Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Þá fer Kolbrún Halldórsdóttir í umhverfisráðuneytið og tekur við völdum af Þórunni Sveinbjarnardóttur.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar og fyrrverandi ráðherra félags- og tryggingamála, afhendir flokkssystur sinni, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur sitt gamla ráðuneyti.

Össur Skarphéðinsson situr áfram í ráðuneyti, iðnaðar, orku- og byggðamála en í fyrramálið tekur hann við lyklavöldum í utanríkisráðuneytinu af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Engin lyklaskipti verða í samgönguráðuneytinu, þar situr sem fyrr, Kristján L. Möller.

Einar K. Guðfinnsson afhendir Steingrími J. Sigfússyni lyklavöld í landbúnaðar- …
Einar K. Guðfinnsson afhendir Steingrími J. Sigfússyni lyklavöld í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert