Verkefnaáætlun nýrrar ríkisstjórnar ber með sér að gildi verði endurreist í samfélaginu og ný samfélagsleg gildi sett, að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur, verðandi forsætisráðherra. Hún sagði að áhersla verði fyrst og fremst lögð á að koma atvinnulífinu aftur í gang og að slá skjaldborg um heimilin og tryggja betur öryggisnetið í kringum þau.
Ný ríkisstjórn og verkefnalisti hennar voru kynnt á blaðamannafundi sem hófst kl. 16.15 í Gyllta salnum á Hótel Borg. Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon frá VG og Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir frá Samfylkingu sátu við háborðið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hóf fundinn og sagði að það hafi verið mikilvægt að tryggja landinu starfhæfa ríkisstjórn. Hún ætlar ekki að setjast í ríkisstjórn að þessu sinni.
„Þessi ríkisstjórn mun hafa að leiðarljósi fyrst og fremst ábyrga efnahagsstjórn,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir. „Hún mun fyrst og fremst beina sér að brýnum viðfangsefnum varðandi atvinnulífið og heimilin í landinu.“
Jóhanna sagði að nýja ríkisstjórnin verði vinnusöm því hún hafi skamman tíma og ætli sér að koma mörgum brýnum málum í gegn. „Brýnum viðfangsefnum sem okkur í Samfylkingunni tókst ekki að koma í höfn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Jóhanna.
Þau verkefni sem ríkisstjórnin leggur áherslu á og snúa að heimilunum í landinu munu sjá dagsins ljós, vonandi strax í næstu viku að sögn Jóhönnu. Hún nefndi m.a. er greiðsluaðlögun fyrir heimilin sem sé mjög brýn. Einnig eru tilbúnar hugmyndir um breytingar á gjaldþrotalögum. Jóhanna kvaðst vonast til að hvort tveggja yrði lagt fram í næstu viku.
Samkomulag er milli stjórnarflokkana um að leggja fljótlega fram frumvarp um að fólk sem á í miklum greiðsluerfiðleikum geti tekið út hluta séreignasparnaðar síns.
Kynntar voru aðgerðir fyrir atvinnulífið í landinu. Þar er meginatriði að framkvæmdum verði beint í verkefni sem eru þjóðhagslega hagkvæm og krefjast mikils vinnuafls. Þar eru ýmsar hugmyndir tilbúnar og sjá þær dagsins ljós fljótlega.
Leitað verður leiða til að efla fjárfestingu innlendra og erlendra aðila. Einnig vill ný ríkisstjórn greiða úr vanda lífvænlegra fyrirtækja á grundvelli gegnsærra og alþjóðlega viðurkenndra reglna. Jóhanna sagði mjög brýnt að verðmati á eignum nýju bankanna verði hraðað. Skoða þurfi hvort hægt sé að gera bráðabirgðauppgjör í bönkunum til að hægt sé að nýta hluta af þeim 385 milljörðum króna sem fráfarandi ákvað að veita til að styrkja bankakerfið. Jóhanna sagði að það gæti komið atvinnulífinu fyrr af stað en ella.
Jóhanna sagði að að staðinn verði vörður um alþjóðlega samninga sem gerðir hafa verið varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. „Það er grundvallaratriði að við vinnum náið í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það mun þessi ríkisstjórn standa vörð um,“ sagði Jóhanna.
Jóhanna sagði nýmæli að lýðræðisumbótum sem nýja ríkisstjórnin mun beita sér fyrir. Þótt skammur tími sé til stefnu þá telji hún að allir möguleikar séu á að ná þeim fram. Þar má nefna sameign þjóðarinnar á auðlindunum. Einnig er talað um rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu, einnig að auka lýðræði og jöfnuð.
Rætt er um að breyta aðferðum við breytingar á stjórnarskránni. Í stað þess að rjúfa verði þing og kjósa nýtt til að stjórnarskrárbreyting öðlist gildi er nú rætt um að allar stjórnarskrárbreytingar þurfi að fara til þjóðaratkvæðisgreiðslu. Einnig er rætt er um að stofna til stjórnlagaþings. Frumvarp um það verði samþykkt fljótlega. Rætt er um að stjórnlagaþing fjalli um meðferð á fullveldissamningum, aðskilnað valdaþátta, þ.e. skýrari aðgreiningu valdaþátta ríkisvaldsins, og endurskoðun á mannréttindaákvæðum.
Einnig er rætt um að kosningalögum verði breytt og að opnað verði á persónukjör í kosningum til Alþingis. Þá er í býgerð að undirbúa nýjar reglur um skipan hæstaréttar- og héraðsdómara. Einnig verði gerð breyting á lögum um ráðherraábyrgð. Settar verði siðareglur í Stjórnarráðinu og eftirlaunalögin verði afnumin. Almennar reglur um lífeyriskjör opinberra starfsmana muni einnig gilda um alþingismenn og ráðherra.
Jóhanna sagði athyglisvert við þessa ríkisstjórn að í fyrsta sinn sé jafnræði með kynjunum í ríkisstjórn Íslands auk þess sem kona taki í fyrsta sinn við embætti forsætisráðherra.