Fréttaskýring: Lýðræðisskólinn sem þjóðin nam aldrei við

mbl.is/Ómar

Stjórnlagaþing er Íslendingum framandi fyrirbæri, enda þótt íslenska stjórnarskráin eigi rætur að rekja til slíkrar samkomu. Það var í Danmörku 1848-49. Til umræðu kom að halda slíkt þing eftir lýðveldisstofnun en aldrei varð af því. Um svipað leyti, á árunum eftir stríð, tóku um tíu ríki sig til og héldu stjórnlagaþing.

Að sögn Ágústs Þórs Árnasonar, aðjunkts við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, eru til heimildir um 150 stjórnlagaþing, víðs vegar um heiminn, frá árinu 1789. Spurður um fordæmi fyrir þingi sem þessu, sem haldið hefur verið með skömmum fyrirvara, nefnir Ágúst þjóðfundinn í Noregi árið 1814. 112 manns komu þá saman í bænum Eidsvoll og sömdu stjórnarskrá á nokkrum vikum með litlum fyrirvara. Um þetta leyti hafði Noregur verið afhentur Svíum eftir Napóleonsstríðin, en Norðmenn töldu sig bara í konungssambandi við Danmörku. Sú stjórnarskrá hefur staðist tímans tönn.

Fulltrúar valdir með hlutkesti

Hann segir ekki nauðsynlegt að reyna að tryggja ákveðið hlutfall sérfræðinga í hóp fulltrúa á þinginu, heldur ætti flest vel upplýst fólk að geta sett sig inn í málefni þess. Mynda þurfi sérfræðinefndir, halda ráðstefnur og kosta verulega til upplýsingagjafar í kringum það. „Þá mætti ráðgjafarþing eða umræðuþing, sem væri allt að þrisvar sinnum fjölmennara en stjórnlagaþingið sjálft, hittast einu sinni í mánuði á starfstíma þess,“ segir Ágúst. Miklu þurfi að kosta til að tengja umræðuna við almenning allan, með fundahöldum um allt land og virkri umræðu á netinu. „Til eru fyrirmyndir af þessu frá síðustu árum. Til dæmis frá Suður-Afríku, Sviss og Hollandi, þar sem endurskoðun stjórnarskrár hefur verið rædd úti í þjóðfélaginu.“ Þau ferli hafi þó tekið lengri tíma en þá sex mánuði sem hér eru áætlaðir í þingið.

Flokkarnir haldi sig til hlés

Hann geldur samt varhug við róttækum hugmyndum um umbyltingu stjórnarfarsins. „Menn þurfa líka að spyrja sig hvort ekki sé skynsamlegt að leysa vandamálin innan þeirrar lýðræðishefðar sem er ríkjandi. Þetta mál á ekki að snúast um endurritun stjórnarskrárinnar bara til þess eins að endurrita hana.“

Hvað kostar stjórnlagaþing?

Í frumvarpi þingmanna Framsóknarflokks, um stjórnlagaþing, kemur fram að þingmenn skuli njóta sömu kjara og alþingismenn. Í ár er þingfararkaupið 520.000 krónur. Samkvæmt frumvarpinu eiga 63 að taka sæti á stjórnlagaþingi, líkt og á Alþingi. Launakostnaður á mánuði yrði því um 32,8 milljónir króna. Starfstími þingsins yrði samkvæmt frumvarpinu líklega ekki meiri en sex mánuðir, en gæti þó farið í allt að tólf ef allir frestir yrðu nýttir. Þetta þýðir launakostnað á bilinu 196-393 milljónir króna.

Þar að auki hefði forsætisnefnd stjórnlagaþingsins heimild til að stofna til útgjalda ríkissjóðs vegna aðstöðu, starfsfólks og ráðgjafar, sem yrði væntanlega ærinn. Mjög erfitt er að hugsa sér stjórnlagaþing með minni tilkostnaði en 250 milljónum króna.

Þar að auki verða einar til þrennar aukakosningar í ferlinu. Almenn kosning á landsvísu kostar 160-170 milljónir króna. Svo líklegt er að heildartalan endi ekki fjarri 500-600 milljónum króna, en gæti þó orðið miklu hærri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert