Pólitískar hreinsanir og heift

Forsætisráðherra sagðist á blaðamannafundi í morgun hafa sent seðlabankastjórunum bréf og beðið þá að víkja. Einn seðlabankastjóri verður faglega ráðinn í kjölfar auglýsingar samkvæmt nýju frumvarpi um Seðlabankann.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir uppsagnir seðlabankastjórana og umræður um pólitískar hreingerningar í stjórnkerfinu hafa á sér afar ógeðfelldan blæ. Hann segir að sjálfstæðismenn hafi verið tilbúnir að skoða sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og muni meta frumvarp ríkisstjórnarinnar á málefnalegum forsendum. Afar margt bendi þó til þess að Samfylkingin stjórnist fyrst og fremst af pólitískri heift.

Jón Magnússon, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, fagnar því að það verði einn seðlabankastjóri sem verði faglega ráðinn í kjölfar auglýsingar. Það sé í samræmi við frumvarp sem hann hafi sjálfur lagt fram. Um aðferðina gegni öðru máli. Hann segir ríkisstjórnina reyna að slá áróðurslegar keilur, sem geti leitt til þess að kostnaður ríkisins verði miklu meiri en annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert