Stjórnin verður á velferðarvaktinni

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir tók við lyklinum að ráðuneytinu úr hendi …
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir tók við lyklinum að ráðuneytinu úr hendi Jóhönnu Sigurðardóttur mbl.is/Ómar

„Ég byrjaði náttúrlega í morgun og vissi þetta í gær,“ sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra í gærdag þegar hún var spurð út í aðstoðarmannamál sín. Ásta Ragnheiður sagðist viss um að hún þyrfti á frekari aðstoð að halda, en er enn að íhuga útfærsluna. „Og ég er með rosalega fínt og flott fólk í ráðuneytinu. Einstaklega góðan hóp sem verður mér ómetanlegur í þessari vinnu sem framundan er.“

Þegar rennt er yfir verkefnalista nýrrar ríkisstjórnar má sjá að ráðgert er að setja á fót svonefnda velferðarvakt. Þar er komið fram hugtak sem ekki hefur farið hátt, allavega ekki á síðum Morgunblaðsins. Ásta Ragnheiður segir hugtakið þó ekki alveg nýtt af nálinni. „Ég hef oft sagt það á mínum stjórnmálaferli, að ég væri á velferðarvaktinni í þinginu. Þetta er mjög gott hugtak og brýnt við núverandi aðstæður.“

Á verkefnalista ríkisstjórnarinnar segir að velferðarvaktin muni fylgjast með félagslegum afleiðingum bankahrunsins og gera tillögur til að mæta þeim. Ásta Ragnheiður tekur fram að ýmislegt sé þegar komið til framkvæmda og aðrar aðgerðir í vinnslu. „Ég hef farið um ráðuneytið og sé að það er verið að vinna að mörgum góðum málum. Svo þurfum við að vera dugleg við að koma þeim í framkvæmd. Ég ætla mér að koma þeim málum til skila sem verið er að vinna að.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert