Gagnrýna forsetaskipti

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Árni

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag, að það væri afar sérstakt að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar, sem að auki væri minnihlutastjórn, væri að koma réttkjörnum forseta Alþingis úr embætti. 

Á dagskrá þingsins er m.a. að kjósa nýjan þingforseta í stað Sturlu Böðvarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Fyrir liggur að Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, tekur við embættinu.

Sagði Þorgerður Katrín, að þingmenn hefðu í áratugi  heyrt formann Vinstri grænna tala um að þingforsetinn ætti að koma úr röðum stjórnarandstöðu. „Þegar á hólminn er komið verða beinin að brjóski," sagði Þorgerður Katrín og bætti við að forsetaskiptin væru í boði Framsóknarflokksins.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri ekki mikil reisn yfir því, að koma með umræðu af þessum toga nú vegna þess, að meirihluti þingsins hefði óskað eftir því að fram fari kosning um embætti forseta þingsins og það væri í anda þingskapa. Ekki væri um að ræða neina aðför gegn Sturlu Böðvarssyni heldur eðlilegar breytingar.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að breyting á forseta hefði ekkert með persónu Sturlu Böðvarssonar að gera. Ný ríkisstjórn hefði tekið við völdum og meirihluti þingsins óskað eftir því að fram fari forsetakjör. Embætti séu ekki séreign einhverra stjórnmálaflokka en Sjálfstæðisflokkurinn hefði ráðið forseta Alþingis í 18 ár.

Sagði Birkir að ný ríkisstjórn þurfi að koma mörgum málum til leiðar. Það ætlaði hún að gera og  framsóknarmenn ætli að styðja hana í öllum góðum málum.

Jón Magnússon, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, sagði að Sturla Böðvarsson hefði komið mörgum hagsmunamálum þingmanna fram  á þeim tæpu tveimur árum sem hann hefur gegnt embættinu. Það færi ekki hjá því, að þegar skipt væri um forseta á miðju kjörtímabili fælist í því vantraust á forsetann. Sagðist Jón ekki geta tekið þátt í að lýsa slíku vantrausti á forseta, sem hefði komið fram með einstökum glæsibrag.

Langar og á stundum háværar umræður fóru fram um þetta mál. Undir lok þeirra sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að það hefði verið athyglisvert að varaformaður Sjálfstæðisflokks (Þorgerður Katrín) hefði ekki komið með nein hlýleg orð eða árnaðaróskir í garð nýrrar ríkisstjórnar. Sagði hann að viðbrögð sjálfstæðismanna á Alþingi við stjórnarskiptunum væru einhver heiftarlegustu fráhvarfseinkenni sem hann hefði séð og það væri víst hægt að fá sér hjálp við þannig löguðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka