Guðbjartur kjörinn þingforseti

Guðbjartur Hannesson var í dag kjörinn forseti Alþingis.
Guðbjartur Hannesson var í dag kjörinn forseti Alþingis. mbl.is/Ómar

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, var kjörinn forseti Alþingis í dag með 35 atkvæðum en Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, fékk 25 atkvæði. Einn atkvæðaseðill var auður.

Áður en atkvæðagreiðslan var haldin deildu þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu hart um þá ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar, að skipt væri um þingforseta. Sturla Böðvarsson hefur gegnt embættinu frá því í maí 2007.

Eftr að hafa lýst kjörinu vék Sturla úr forsetastóli og Guðbjartur settist þar.  Guðbjartur sagði, að atburðir og umræða að undanförnu hefðu endurspeglað vaxandi vantraust í garð Alþingis en krafan væri um sterkara Alþingi og aukið lýðræði. Minnihlutastjórn, eins og nú sæti, gæti stuðlað að því.

Þá sagði sagði Guðbjartur að Alþingi mætti ekki verða vettvangur kosningabaráttu einstakra þingmanna og stjórnmálaflokka. Sagðist hann vona að gott samstarf tækist um þingstörfin það sem eftir væri af þingtímanum.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, óskaði Guðbjarti til hamingju með kjörið en sagði að þingið hefði misst af einstöku tækifæri með því að styðja ekki fyrrum þingforseta til áframhaldandi starfa.

Varaforsetar þingsins verða eins og áður þau, Kjartan Ólafsson, Sjálfstæðisflokki, Þuríður Backman, VG, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Einar Már Sigurðarson, Samfylkingu, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Sjálfstæðisflokki og Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum.

Þá var kosið í fastanefndir þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka