Listamaðurinn Hlynur Hallsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns-framboðs í Norðaustur-kjördæmi sem fram fer fyrir Alþingiskosningarnar í vor og sækist hann eftir því að skipa 1.-3. sæti listans, að því er segir í tilkynningu frá Hlyni.
„Á síðustu árum hef ég tekið virkan þátt í starfi fyrir Vinstri græn, tók fimm sinnum sæti á Alþingi sem varamaður á árunum 2003-2007. Þar lagð ég meðal annars fram frumvarp um að kosningaaldur verði 16 ár eins gert hefur verið í nokkrum löndum Evrópu og gefist vel, um leið og aukin fræðsla um lýðræði verði veitt í grunn- og framhaldsskólum.
Einnig lagði ég fram þingsályktunartillögu um gerð Vaðlaheiða-gangna, beitti mér fyrir auknum framlögum til Háskólans á Akureyri og til menntamála almennt. Talaði fyrir lengingu flugvallarins á Akureyri og beinu millilandaflugi og bættri aðstöðu fyrir ferðamenn á Egilsstöðum og Seyðisfirði sem og að bæta aðstöðu ferðaþjónustunnar á Norður- og Austurlandi. Umhverfismál, atvinnumál, menningarmál, beint lýðræði og byggðamál eru mér afar hugleikin," að því er segir í tilkynningu frá Hlyni.
Hlynur er kvæntur Kristínu Þóru Kjartansdóttur félags- og sagnfræðingi og eiga þau fjögur börn.
Hlynur var formaður svæðisfélags Vg á Akureyri frá 2002 – 2004, kosningastjóri Vinstri grænna í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri 2006 og situr nú í stjórn Vg og er formaður kjördæmisráðs Norðausturkjördæmis.