Þórður Guðjónsson, knattspyrnumaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þórður segir á vef Skessuhorns, að hann gefi kost á sér í eitt af þremur efstu sætum listans.
Þórður tilkynnti félögum sínum í Sjálfstæðisfélagi Akraness þessa ákvörðun sína á fundi í gær.
Þórður er 35 ára, kvæntur og þriggja barna faðir. Hann var um árabil atvinnumaður í knattspyrnu og segist lítið hafa komið nálægt íslenskri pólitík áður enda hafi hann búið erlendis í 13 ár.
„Síðan ég flutti heim árið 2006 hef ég beitt mér í ýmsum verkefnum meðal annars í skólamálum á Akranesi. Mín helstu baráttumál verða velferðar- og fjölskyldumál, svo sem atvinnu-, mennta- og heilbrigðismál,” er m.a. haft eftir Þórði á vef Skessuhorns.
Gert er ráð fyrir að tekin verði ákvörðun á fundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi á laugardag hvernig skipað verði á framboðslista flokksins.