Þórlindur Kjartansson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann óskar eftir stuðningi í 4. sæti í prófkjörinu. Eftirfarandi er tilkynning frá framboði hans:Þórlindur er 32 ára gamall og hefur lokið BA námi í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann var kjörinn formaður SUS haustið 2007 á þingi sambandsins á Seyðisfirði. Þar hlaut hann stuðning yfir 90% þinggesta.
Hann leggur áherslu á að til þess að Ísland standist samkeppni á alþjóðavísu þurfi að tryggja að landið sé bæði opið og frjálst.
Skynsamleg nýting auðlinda, góð menntun og frumkvöðlahvetjandi umhverfi eru traustur grunnur undir endurreisn í íslensku athafnalífi. Séu þessi grundvallaratriði tryggð munu Íslendingar koma í veg fyrir að mikill fjöldi fólks hverfi úr landi, því hér verða forsendur góðar fyrir skjótan bata efnahagslífsins.
Þórlindur hefur verið talsmaður breytinga í gjaldeyrismálum.
Mikilvægasta hlutverk Sjálfstæðisflokksins nú, að mati Þórlinds, er að halda uppi vörnum fyrir frjálst athafnalíf og einstaklingsfrelsið í sem víðustum skilningi. Breyttar aðstæður kalla á endurskoðun ýmissa þátta í grunngerð samfélagsins, einkum fjármálaþjónustunnar. Traust á einstaklinginn, sköpunarkraft hans og atorku, er þó enn sem fyrr farsælasta leiðin til þess að skapa verðmæti og auka lífsgæði.
Þórlindur er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann var Inspector Scholae í Menntaskólanum í Reykjavík, var formaður og oddviti Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, í Háskóla Íslands og ritstjóri vefritsins Deiglan.com. Hann hefur skrifað hundruð greina um þjóðmál. Í menntaskóla skrifaði hann í félagi við Eggert Þór Aðalsteinsson metsölubækur um íþróttir.
Hann hefur verið sjálfstæður atvinnurekandi, starfað sem blaðamaður, verið ráðgjafi ráðherra og starfaði við markaðsmál og viðskiptaþróun í Landsbankanum. Hann hóf meistaranám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík sl. haust.
Þórlindur er sonur hjónanna sr. Kjartans Arnar Sigurbjörnssonar og Katrínar Þórlindsdóttur. Hann er kvæntur Ingunni H. Hauksdóttur endurskoðanda og saman eiga þau soninn Anton Hauk.