Árni M. Mathiesen, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og fyrrverandi fjármálaráðherra, sækist áfram eftir setu á Alþingi í kosningunum 25. apríl næstkomandi. Þetta staðfesti Árni við Morgunblaðið í gær.
Hann fær þó samkeppni um efsta sætið á listanum í prófkjöri, sem haldið verður 14. mars, en annar sitjandi þingmaður kjördæmisins, Árni Johnsen, setur einnig stefnuna á það sæti. Þriðji þingmaðurinn, Kjartan Ólafsson, sem var í öðru sæti síðast, gefur líka kost á sér áfram og staðfestir við Morgunblaðið að hann vilji ekki vera neðar en í öðru sæti nú.
Fjórði þingmaðurinn, Björk Guðjónsdóttir, mun líka taka þátt í prófkjörinu en gefur ekki upp að svo stöddu eftir hvaða sæti hún sækist.
Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri hefur einnig verið orðaður við eitt af efstu sætum listans en í samtali við Morgunblaðið kvaðst hann ekki enn hafa gert upp hug sinn. „En það er krafa um endurnýjun í flokknum og þrýstingurinn er meiri nú en fyrir viku. Fólk getur dregið sínar ályktanir af því,“ segir Eyþór.
Nú þegar hafa 15 manns lýst áhuga sínum á því bjóða sig fram í kjördæminu en meðal þeirra sem þegar hafa gefið kost á sér eru: Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, Íris Róbertsdóttir, kennari í Vestmannaeyjum, Guðbjörn Guðbjörnsson, óperusöngvari í Reykjanesbæ, Árni Árnason, blaðamaður í Reykjanesbæ, Grímur Gíslason, framkvæmdastjóri í Vestmannaeyjum, og Ingigerður Sæmundsdóttir, verkefnastjóri í Reykjanesbæ.
Fimm af sex þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi gefa kost á sér áfram, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Bjarni Benediktsson, Ármann Kr. Ólafsson, Jón Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir. Sjötti þingmaðurinn, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hefur ekki tekið ákvörðun um framboð en mun gera það á allra næstu dögum.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins liggur ekki fyrir hvort efnt verður til prófkjörs í kjördæminu en sumum þykir það stangast á við formannskjör í flokknum undir lok næsta mánaðar. Bjarni Benediktsson hefur þegar lýst því yfir að hann sækist eftir formannsembættinu og líklegt þykir að Þorgerður Katrín geri það líka. Ákvörðun um prófkjör verður tekin á fundi kjördæmaráðs annað kvöld.Framboðsmál eru tekin að skýrast víðar á landinu. Sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi ákváðu á kjördæmisfundi um helgina að efna til prófkjörs laugardaginn 14. mars. Allir þrír þingmenn kjördæmisins gefa kost á sér til endurkjörs, þau Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ólöf Nordal.