Árni M. Mathiesen, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og fyrrverandi fjármálaráðherra, sækist áfram eftir setu á Alþingi í kosningunum 25. apríl næstkomandi. Þetta staðfesti Árni við Morgunblaðið í gær.
Hann fær þó samkeppni um efsta sætið á listanum í prófkjöri, sem haldið verður 14. mars, en annar sitjandi þingmaður kjördæmisins, Árni Johnsen, setur einnig stefnuna á það sæti. Þriðji þingmaðurinn, Kjartan Ólafsson, sem var í öðru sæti síðast, gefur líka kost á sér áfram og staðfestir við Morgunblaðið að hann vilji ekki vera neðar en í öðru sæti nú.
Fjórði þingmaðurinn, Björk Guðjónsdóttir, mun líka taka þátt í prófkjörinu en gefur ekki upp að svo stöddu eftir hvaða sæti hún sækist.
Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri hefur einnig verið orðaður við eitt af efstu sætum listans en í samtali við Morgunblaðið kvaðst hann ekki enn hafa gert upp hug sinn. „En það er krafa um endurnýjun í flokknum og þrýstingurinn er meiri nú en fyrir viku. Fólk getur dregið sínar ályktanir af því,“ segir Eyþór.
Nú þegar hafa 15 manns lýst áhuga sínum á því bjóða sig fram í kjördæminu en meðal þeirra sem þegar hafa gefið kost á sér eru: Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, Íris Róbertsdóttir, kennari í Vestmannaeyjum, Guðbjörn Guðbjörnsson, óperusöngvari í Reykjanesbæ, Árni Árnason, blaðamaður í Reykjanesbæ, Grímur Gíslason, framkvæmdastjóri í Vestmannaeyjum, og Ingigerður Sæmundsdóttir, verkefnastjóri í Reykjanesbæ.
Fimm af sex þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi gefa kost á sér áfram, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Bjarni Benediktsson, Ármann Kr. Ólafsson, Jón Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir. Sjötti þingmaðurinn, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hefur ekki tekið ákvörðun um framboð en mun gera það á allra næstu dögum.
Framboðsmál eru tekin að skýrast víðar á landinu. Sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi ákváðu á kjördæmisfundi um helgina að efna til prófkjörs laugardaginn 14. mars. Allir þrír þingmenn kjördæmisins gefa kost á sér til endurkjörs, þau Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ólöf Nordal.