Sturla Jónsson, vörubílstjóri, er genginn til liðs við Frjálslynda flokkinn. Segist hann í tilkynningu ætla að leggja sitt af mörkum til þess að koma þeim öflugu málum, sem flokkurinn standi fyrir, á framfæri í næstkomandi alþingiskosningum.
Sturla segist hafa í nokkurn tíma fylgst með Frjálslynda flokknum og málflutningi hans fyrir hina vinnandi stétt, fjölskyldurnar í landinu og eldri borgarana. Í raun hafi það komið sér á óvart hvað þessi litli flokkur hafi margt fram að færa og virðist standa upp úr þegar komi að málefnum atvinnulífsins.
Þá hafi flokkurinn barist fyrir þjóðareign á náttúruauðlindum og sé sennilega eini flokkurinn sem hefur staðið þar hreinn og beinn.
Virðist þó sem einhver þöggun ríki í kringum flokkinn þar sem fjölmiðlar hafi hingað til ekki veitt honum réttmæta umfjöllun.
Sturla stofnaði á síðasta ári stjórnmálaflokk, Lýðræðisflokkinn sem síðar varð Framfaraflokkurinn.