„Ég veit ekki betur en það sé hægt að losna við menn,“ segir Sigurður Líndal, prófessor við Háskólann á Bifröst, vegna beiðni forsætisráðherra til seðlabankastjóra um að víkja úr starfi.
Sigurður segir að sér sýnist sem tvær leiðir séu til þess að víkja mönnum úr starfi, annaðhvort vegna einhverra ávirðinga eða með því að leggja embættið niður. „Mér sýnist eiga að fara síðari leiðina.“
Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir í svarbréfi sínu til forsætisráðherra að lög sem eigi að tryggja sjálfstæði seðlabanka og koma í veg fyrir pólitíska aðför að seðlabankastjórninni hafi verið þverbrotin.
Sigurður segist ekki geta tekið afstöðu til þessara atriða.
„Ég hef ekki sett mig inn í hver nauðsyn er á þessu frumvarpi um breytingar á lögum um Seðlabankann.“
Það er mat Sigurðar að ekki sé nauðsynlegt að formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands sé hagfræðingur. „Eru ekki tveir hagfræðingar með honum og alveg heill herskari af hagfræðingum í bankanum? En ég geri kannski ráð fyrir því að hagfræðingar séu oftast ráðnir í þetta starf.“