Ólafur Sveinn Jóhannesson, hefur ákveðið að bjóða sig fram í 1.–2. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.
Ólafur segist í fréttatilkynningu vera fæddur árið 1979 og uppalinn á Tálknafirði í faðmi fjalla og fuglabjarga. „Norðvesturkjördæmi á sérstakan stað í hjarta mínu, en þar hef ég fengist við fjölbreytt störf, allt frá fiskvinnslu til ferðaþjónustu. Ber þar helst að nefna framkvæmdastjóri Fjord Fishing ehf. sem sérhæfir sig í sjóstangveiði og forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Tálknafjarðar.
Árið 2002 lauk ég sveinsprófi í rafeindavirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík og nú í vor lýk ég sveinsprófi í rafvirkjun frá Tækniskólanum. Í gegnum árin hef ég átt sæti í ýmsum nefndum og sat meðal annars í stjórnum Ferðamálasamtaka Vestfjarða og Framtíðarlandsins, en þar gegndi ég starfi framkvæmdastjóra um hríð. Við störf mín hef ég notið þess að kynnast og vinna með fjöldanum öllum af mætu fólki sem ég hef lært mikið af," að því er segir í tilkynningu frá Ólafi