Látið karpið bíða til kosningabaráttunnar

Ragnheiður Ólafsdóttir.
Ragnheiður Ólafsdóttir.

Látið karpið bíða til kosningabaráttunnar, sagði Ragnheiður Ólafsdóttir, nýr varaþingmaður Frjálslynda flokksins, sem las þingmönnum pistilinn á Alþingi í dag.

Ragnheiður tók til máls undir liðnum störf þingsins. Hún sagðist lengi hafa fylgst með Alþingi en þó sérstaklega eftir að hún vissi það í síðustu viku að hún myndi taka sæti á þinginu.

„Miðvikudaginn 4. febrúar, þá var mikið karp um kosningu forseta Alþingis. Ótrúlegt. Fimmtudagur 5. febrúar. Fyrsti heili starfsdagur Alþingis með nýrri ríkisstjórn. Þá var umræða um greiðsluaðlögun. Rifrildi, frammíköll og  að  mínu mati hálfgerð upplausn um hver samdi frumvarpið eins og það skipti fólk úti í þjóðfélaginu einhverju máli, eða hvað?

Föstudagurinn 6. febrúar. Umræða um Seðlabankann. Karp, frammíköll, málþóf.

Í gær, minn  fyrsta dag hér á Alþingi þá upplifði ég ekki mjög málefnalegar umræður; frammíköll og ýmis upphrópunarefni og mér fannst ég vera komin á framboðsfund vestur á fjörðum hér í gamla daga með Matta Bjarna, Sighvati Björgvins, Vilmundi Gylfa og Karvel Pálma. Þá var ekkert sjónvarp svo allir íbúarnir voru að fara á skemmtifund og höfðu gaman af.

Mér finnst sorglegt að horfa upp á sjálfstæðismenn eiga mjög erfitt með að vera í stjórnarandstöðu hér og ekki getað fótað sig. En almenningur, sem heima situr og horfir agndofa á slíkar umræður, bíður í ofvæni eftir að Alþingi segi eitthvað og geri eitthvað í til að hjálpa heimilum og fyrirtækja þessa lands.... Ég bið ykkur þingmenn að hafa  aðgát í nærveru sálar. Sýnið þingi og þjóð þá virðingu að láta karpið bíða til kosningabaráttunnar," sagði Ragnheiður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka