Vill í forystusveit í Suðurkjördæmi

Sigurður Ingi Jóhannsson, dýralæknir, hefur ákveðið að gefa kost á sér til forystu á lista Framsóknarflokksins Í Suðurkjördæmi. Sigurður Ingi hefur lengi tekið virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins. Jafnframt hefur hann setið í sveitarstjórn Hrunamannahrepps í 15 ár í vor, þar af sjö ár sem oddviti og 4 ár sem varaoddviti.

Sigurður Ingi hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum og tekur virkan þátt í  pólitísku starfi sveitarfélaga á Suðurlandi með setu í ýmsum stjórnum og nefndum.

Sigurður segist í tilkynningu, hafa óbilandi trú á gildum Framsóknarflokksins og hann vilji leggja sitt af mörkum í því mikla uppbyggingarstarfi sem framundan er á Íslandi. Það starf krefjist óeigingirni, heiðarleika, dugnaðar og skynsemi.  Með framboði sínu segist Sigurður Ingi leggja í það starf, fram krafta sína, reynslu og þekkingu á stjórnmálum.

Sigurður Ingi er dýralæknir og einn af eigendum og starfsmönnum Dýralæknaþjónustu Suðurlands. Hann  býr í Syðra – Langholti, Hrunamannahreppi, fæddur og uppalinn Árnesingur. Sambýliskona hans er Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri,  og eiga þau samtal 5 börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert