Enn einn í formannsslag

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is

Möguleikar Bjarna Benediktssonar alþingismanns á því að verða kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á aðalfundi flokksins í lok mars jukust svo um munar í fyrradag þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lýsti því yfir að hún hygðist bjóða sig fram til áframhaldandi setu sem varaformaður flokksins en ekki til formanns.

Bjarni er sá eini sem hefur lýst yfir framboði til formanns. Það er þó ekki þar með sagt að Bjarni verði kjörinn formaður og á sama hátt er ekki heldur hægt að slá því föstu að Þorgerður Katrín verði kjörin varaformaður. Enn er nægur tími fyrir aðra til að tilkynna framboð til þessara embætta og í raun er engin þörf á að gera það fyrr en á landsfundi þar sem allir eru í kjöri.

Þorgerður Katrín var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins árið 2005 og það var ekki nema eðlilegt að gera ráð fyrir því að hún hefði hug á formennsku. Það kom því mörgum á óvart þegar hún lýsti því yfir að í stað þess að taka þátt í kosningabaráttu um formannssætið vildi hún frekar beina kröftum sínum að innra starfi flokksins.

Einn af stuðningsmönnum Þorgerðar Katrínar sem rætt var við í gær sagði að töluvert hefði verið þrýst á hana að bjóða sig fram, ekki síst af hálfu kvenna innan flokksins en einnig af hálfu flokksmanna sem tengja Bjarna, með réttu eða röngu, við arm innan flokksins sem ýmist er kenndur við Davíð Oddsson og Björn Bjarnason.

Einn þessara tilteknu stuðningsmanna bætti jafnframt við að tenging Bjarna við þennan arm væri ekki síst vegna ætternis Bjarna, fremur en vegna afstöðu hans til tiltekinna málefna. Bjarni er sem kunnugt er af Engeyjarættinni en einstaklingar af þeirri ætt hafa lengi gegnt áhrifastöðum í stjórnmálum og í efnahagslífinu.

Annar sjálfstæðismaður sem þekkir vel til sagði að það ynni með Bjarna að hafa ekki verið í ríkisstjórn því rík krafa væri um endurnýjun í forystusveitinni.

Aðrir sem helst hafa verið nefndir sem hugsanlegir frambjóðendur til formanns eru Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristján Þór Júlíusson.

Guðlaugur Þór hefur lýst því yfir að hann sækist eftir 1. sæti í prófkjörinu í Reykjavík en tilkynnir um hvort hann sækist eftir formannsembættinu eða ekki síðar.

Kristján Þór hefur heldur ekki sagt hvort hann sækist eftir forystu í flokknum. „Ég á eftir að fara í prófkjör í mínu kjördæmi og þá reynir fyrst á styrk manns,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið í gær. Þegar úrslitin í prófkjörinu lægju fyrir myndi hann taka ákvörðun um framboð til forystustarfa á landsfundi. Fengi hann góðan stuðning yrði framboð miklu líklegra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert