Segir afskipti forsetans af stjórnarmyndum opinbert leyndarmál

Björn Ingi Hrafnsson
Björn Ingi Hrafnsson Brynjar Gauti

Björn Ingi Hrafnsson, segir á bloggvef sínum að það sé opinbert leyndarmál, að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tók mikinn þátt í þeirri atburðarás sem leiddi til falls ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og myndunar fyrsta ráðuneytis Jóhönnu Sigurðardóttur.

„Forsetinn sló þannig nánast á puttana á Geir, þegar hann tilkynnti um að samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar væri lokið en hann vildi ræða við formenn flokkanna um myndun þjóðstjórnar. Fullyrt er að forsetinn hafi þá sagt forsætisráðherranum að þar sem hann nyti ekki lengur stuðnings meirihluta þingsins, hefði hann ekki lengur neitt umboð til stjórnarmyndunar og ef einhver stjórn yrði mynduð, yrði það á ábyrgð og verksviði forsetans og ekki annarra!

Þetta telja sjálfstæðismenn til marks um að forsetinn hafi fyrir löngu verið búinn að ákveða nýtt stjórnarmynstur og gagnrýna harðlega að hann hafi ekki eytt neinum kröftum í tilraunir til að mynda hefðbundna meirihlutastjórn, eins og ætti þó alltaf að vera fyrsti kostur.

Fleira kemur svo til. Vitað er að forsetinn gerði sig gildandi í samtölum við formenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks alla dagana sem nýja minnihlutastjórnin var í burðarliðnum. Aðrir þingmenn urðu ítrekað vitni að símtölum sem þurfti að sinna frá Bessastöðum, svo engum blöðum er um það að fletta, að forsetinn tók sjálfur beinan þátt í stjórnarmynduninni, ekki síst á lokasprettinum þegar svo virtist sem snurða væri hlaupinn á þráðinn og framsóknarmenn teldu sig þurfa útfærðar tillögur um björgunaraðgerðir, ættu þeir að lýsa því yfir að þeir verðu nýja stjórn vantrausti," segir á vef Björns Inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert