Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Fiskimiða ehf og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NA – kjördæmi. Hann sækist eftir 4.sæti í prófkjörinu.
Jens Garðar er 32 ára gamall, fæddur og uppalinn á Eskifirði. Hann stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands frá 1997 – 2000 en hefur síðan þá rekið útflutningsfyrirtækið Fiskimið ehf sem flytur út fiskimjöl og lýsi með aðsetur á Eskifirði.
Jens hefur gengt mörgum trúnaðar og stjórnarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sat í sjávarútvegsnefnd, í stjórn SUS fyrir Austurland frá 1993 – 2003, í stjórn Varðar FUS Akureyri í 4 ár þ.a formaður 1995 – 1996 og í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri sömu ár, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Fjarðabyggð 2004 – 2006. Í dag er Jens bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, varafulltrúi í bæjarráði og situr í mannvirkjanefnd, að því er segir í tilkynningu.