Ólöf Nordal fer fram í Reykjavík

Ólöf Nordal
Ólöf Nordal

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur ákveðið að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar. Prófkjörið fer fram 13. og 14. mars næstkomandi.

Ólöf tók sæti á Alþingi eftir þingkosningarnar 2007, en þá var hún í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

„Ég er mjög þakklát fyrir það traust sem ég fékk í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu kosningar. Ég kom ný á lista flokksins eftir afgerandi stuðning í prófkjöri. Breyting hefur nú orðið á högum fjölskyldunnar á þann veg, að við erum nú flutt úr kjördæminu. Aðalaðsetur fjölskyldu minnar er nú í Reykjavík , þar sem ég er fædd og uppalin og mér finnst því eðlilegt að ég leggi verk mín í dóm sjálfstæðismanna í Reykjavík,” segir Ólöf í fréttatilkynningu.

Á Alþingi hefur Ólöf gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum, m.a. setið í allsherjarnefnd og umhverfisnefnd, auk þess að vera varaformaður samgöngunefndar. Hún situr í háskólaráði Háskólans á Akureyri, stjórn Handverks og hönnunar, er formaður í nefnd á vegum fjármálaráðuneytis um kynbundin launamun og fleira.

Ólöf Nordal er gift Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra Alcoa á Íslandi. Þau eiga fjögur börn á skólaaldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert