Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 24,1% í nýrri könnun, sem Markaðs- og miðlarannsóknir (MMR) hafa gert. Í síðustu könnun fyrirtækisins í janúar mældist fylgi flokksins mældist 16,7%. Þá eykst fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp 5 prósentustig frá í janúar, eða úr 24,3% í 29% og mælist hann enn á ný stærsti stjórnmálaflokkurinn.
Fylgi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs dalar hins vegar nokkuð milli kannana og mælist nú 23,4% en var 28,5% í síðustu könnun.
Fylgi Framsóknarflokksins dalar heldur og mælist nú 14,9% en var 17,2% í janúar.
Fjöldi þeirra sem sagðist myndu kjósa aðra stjórnmálaflokka en buðu fram síðast minnkar úr 7,9% í janúar í 6,6% nú.
MMR gerði síðast könnun dagana 20.-21. janúar þegar búsáhaldabyltingin
svonefnda stóð sem hæst, tveimur dögum áður en tilkynnt var um slit
ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Segir fyrirtækið að sú
könnun hafi því glöggt sýnt hve erfið staða Samfylkingarinnar í
ríkisstjórnarsamstarfinu var orðin.
Ríkisstjórnin nýtur meiri stuðnings
Stuðningur við nýja ríkisstjórn mælist nú töluvert hærri en fyrri ríkisstjórn naut dagana fyrir stjórnarslit. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 56,1% en mældist 24,2% í janúar.
Á bilinu 94% til 95% þeirra sem segjast myndu kjósa Vinstri græna eða Samfylkinguna segjast styðja ríkisstjórnina. Þá segjast 61% framsóknarmanna og 3% sjálfstæðismanna styðja ríkisstjórnina.
Könnunin var gerð dagana 11.-12. febrúar og var heildarfjöldi svarenda 971 einstaklingur.