Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, mun ekki bjóða sig fram til þings á næsta kjörtímabili. Þetta tilkynnti hún í dag á aukakjördæmaþingi Framsóknarflokksins í norðausturkjördæmi.
„Ég er búin að vera að í 22 ár og finnst að minni vakt sé lokið. Auk þess finnst mikilvægt að gefa öðru fólki tækifæri,“ segir Valgerður. Þetta sé að sínu mati rétti tíminn til að hætta. Hefði kjörtímabilið orðið fjögur ár hefði hún líklega hætt að því loknu. „En af því að því lýkur núna þá tók ég þessa ákvörðun um að láta gott heita.“
Hún kveðst engu að síður hafa fullan hug á að starfa áfram innan flokksins, en að öðru leyti hefjist nýtt tímabil hjá sér eftir kosningar. „Þetta eru vissulega tímamót en þetta er allt saman gert í mikilli sátt við alla, bæði innan flokksins og fjölskyldunnar.“
Valgerður hefur setið á Alþingi frá árinu 1987. Hún var formaður Framsóknarflokksins frá því í haust þegar Guðni Ágústsson sagði af sér embættinu, og fram að landsfundi flokksins í janúar. Hún gegndi embættum utanríkisráðherra og viðskipta- og iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á árunum 1999-2007.