Segir þagnarmúr um formennsku í Samfylkingu rofinn

Björn Bjarnason og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Alþingi.
Björn Bjarnason og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Alþingi.

Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir á heimasíðu sinni, að framganga Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum formanns Alþýðuflokksins, í gær verði líklega til að skapa enn meira los innan forystusveitar  Samfylkingarinnar og Jón Baldvin hafi gefið mönnum leyfi til að ræða um formennsku og forystu Ingibjargar Sólrúnar á annan veg en áður.

Jón Baldvin sagði á fundi Alþýðuflokksfélagsins í Reykjavík í gær, að hann vildi að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem formaður Samfylkingarinnar og axli þannig ábyrgð á þætti flokksins í bankahruninu. Sagðist Jón Baldvin myndu styðja Jóhönnu Sigurðardóttur til formennsku en ella myndi hann sjálfur gefa kost á sér.

Björn segir í dag, að umræður  um forustu Samfylkingarinnar hafi verið „tabú“ meðal samfylkingarfólks af tillitssemi við alvarleg veikindi Ingibjargar Sólrúnar. Nú hafi Jón Baldvin rofið þann þagnarmúr.

Segist Björn telja líklegt, að leitast verði við að leysa forustumálin bakvið tjöldin, með einhliða yfirlýsingum og óvæntum nöfnum. Þessa skoðun byggi hann á því, sem gerst hafi frá því að Ingibjörg Sólrún hætti sem borgarstjóri og tók við forystuhlutverki innan Samfylkingarinnar. Vísar hann m.a. til þess þegar Þórólfur Árnason varð borgarstjóri og Jóhanna forsætisráðherraefni.

„Uppnámið innan Samfylkingarinnar vegna formannsframboðs Jóns Baldvins er meira en ella vegna þess, að þar hefur tíðkast að taka ákvarðanir um menn í bakherbergjum og kynna þá til sögunnar á þann veg, að enginn fái rönd við reist. Flogið hefur fyrir, að þannig yrði staðið að því að kynna Dag B. Eggertsson til formennsku í flokknum. Ingibjörg Sólrún veit, að hún segir ekki Jóni Baldvini fyrir verkum. Hún getur því ekki verið viss um, að ráðagerðin um útnefningu á nýjum formanni heppnist. Hún veit hins vegar, að Jón Baldvin ætlar að bjóða sig fram gegn henni," segir Björn.

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert