„Það er að mínu mati ekki lýðræðislegt að gefa ekki kjósendum fullan rétt til að kjósa þá sem þeir vilja í tiltekin sæti,“ segir Ragnar Thorarensen, samfylkingarmaður sem er hættur við að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Ragnar hafði gefið kost á sér í 3. sætið hjá Samfylkingunni í NA-kjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.
Í yfirlýsingu sem Ragnar sendi frá sér segir að hann hafi alla tíð verið jafnréttissinnaður. Spurningin sé hvernig menn nálgist jafnrétti.
„Í gær á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi felldu menn eðlilega þá tillögu að tvö efstu sæti á framboðslista Samfylkingar yrðu skipuð konu og karli. Eftir tveimur efstu sætunum sækjast þrír karlmenn. Þótt það sé afar mikilvægt að konur taki meira virkan þátt í pólitík þá verður það að vera á jöfnum og lýðræðislegum forsendum. Það er að mínu mati ekki lýðræðislegt að gefa ekki kjósendum fullan rétt til að kjósa þá sem þeir vilja í tiltekin sæti. Eftir að tillagan hafði verið felld gengu konurnar út af fundinum en sneru aftur þegar búið var að gera sárabætur sem fólust í því að þær fái þá þriðja sætið örugglega og e.t.v. það fjórða. Sem sagt, ný tillaga gekk út á það að hvort kyn mætti ekki skipa nema tvö sæti í röð á listanum. Þetta túlka sumir sem jafnrétti og lýðræði. Undirritaður ætlaði að gefa kost á sér í 3ja sætið en úr því að þessar reglur hafa verið samþykktar þá sér hann engan tilgang með því og dregur því framboð sitt tilbaka,“ segir í yfirlýsingu Ragnars Thorarensen.