Álfheiður sækist eftir 1.-2. sæti

Álfheiður Ingadóttir.
Álfheiður Ingadóttir.

Álfheiður Ingadóttir, alþingismaður, gefur kost á sér í 1.-2. sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur en forvalið  fram fer 7. mars.

Álfheiður tók sæti á Alþingi eftir þingkosningar 2007 og var þá í öðru sæti á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi suður. Áður hafði hún verið varaþingmaður  í eitt kjörtímabil. 

Álfheiður segir í tilkynningu, að í kosningunum í vor sé nauðsynlegt að fram fari uppgjör við efnahagshrunið og hugmyndafræðilegt gjaldþrot nýfrjálshyggjunnar og stefnu Sjálfstæðisflokksins. En kosningarnar verði fyrst og fremst vegvísir til framtíðar og á úrslitum þeirra velti á hvaða grunni nýtt Ísland verði byggt.

Segir Álfheiður, að á þeim tíma sem hún hafi verið þingmaður hafi hún fengið tækifæri til þess að vinna að nýjum og gömlum baráttumálum á sviði heilbrigðismála og auðlindanýtingar og á síðustu kreppumánuðunum einnig að stefnumörkun flokksins í banka- og peningamálum. „Ég vil gjarnan taka þátt í að byggja nýtt Ísland á hugsjónum vinstri grænna og legg það í hendur félaga minna hvort það verður innan eða utan þings."

Álfheiður er líffræðingur að mennt, fædd 1951 og var útgáfustjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og ritstjóri Náttúrufræðingsins í tíu ár áður en hún var kosin á Alþingi. Maki Álfheiðar er Sigurmar Albertsson hrl. og eiga þau Inga Kristján, fæddan 1991.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert