Fréttaskýring: Flokkarnir velja í forystusveitirnar

mbl.is/Ómar

Baráttan um sæti á framboðslistum stjórnmálaflokkanna fyrir komandi alþingiskosningar mun brátt hefjast fyrir alvöru enda styttist verulega í að flokkanir stilli upp á listana. Hver flokkur, raunar hvert kjördæmisráð innan þeirra, hefur sína aðferð en í flestum tilvikum verður boðað til prófkjörs.

Það er ljóst að prófkjörsbaráttan verður með töluvert öðru sniði en fyrir síðustu kosningar bæði vegna þess hversu skammur tími er til stefnu en ekki síður sökum þess að minni fjármunum verður varið í baráttuna.

Í gær beindi Sjálfstæðisflokkurinn þeim tilmælum til frambjóðenda að þeir eyddu ekki meiru en 2,5 milljónum í prófkjörsbaráttuna en samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálaflokka er hámarkið um átta milljónir í stærri kjördæmum. „Augu almennings beinast að stjórnmálahreyfingum um þessar mundir og mikilvægt að frambjóðendur í prófkjörum á vegum flokksins gangi fram með góðu fordæmi,“ segir í tilkynningunni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnframt ákveðið að opna heimasíðu þar sem frambjóðendur verða kynntir og kjördæmisráðin munu gefa út kynningarblöð.

Tiltekin kjördæmaráð Samfylkingarinnar og öll kjördæmaráð Vinstri grænna hafa ákveðið að auglýsingar séu bannaðar og að frambjóðendur skuli einungis kynna sig á vettvangi flokksins. Framsóknarflokkurinn hefur ekki beint slíkum tilmælum til flokksmanna en að sögn framkvæmdastjóra flokksins er andinn í flokknum þannig að ætla megi að frambjóðendur stilli kostnaði mjög í hóf.

Prófkjör ríkjandi

Prófkjör verða hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi og í gærkvöldi var tilkynnt að einnig yrði boðað til prófkjörs í Reykjavík. Kjördæmisráðin í Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi ákveða sig síðar í vikunni.

Öll kjördæmaráð Vinstri grænna, fyrir utan kjördæmaráðið í Norðvesturkjördæmi sem á eftir að taka ákvörðun, hafa ákveðið að efna til forvals, ýmist með póstkosningu eða kjörfundi. Forvalið, a.m.k. í Reykjavík er í flestu sambærilegt venjulegu prófkjöri. Fyrir síðustu kosningar var uppstilling í öllum kjördæmum nema á höfuðborgarsvæðinu.

Forvalsnefnd í Framsókn

Í Suðvesturkjördæmi samþykktu framsóknarmenn að efna til prófkjörs. Í Norðvesturkjördæmi verður póstkosning og framsóknarmenn í Suðurkjördæmi ætla að viðhafa sömu aðferð. Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi samþykktu að kjósa um hverjir skipa efstu sæti listans á kjördæmisþingi.

Stillt verður upp á lista Frjálslynda flokksins líkt og fyrri ár.

Hvaða þingmenn sækjast ekki eftir áframhaldandi þingsetu?

Af sjálfstæðismönnum hafa Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Guðfinna Bjarnadóttir, Herdís Þórðardóttir og Sturla Böðvarsson lýst því yfir að þau muni ekki bjóða sig fram. Samfylkingarmennirnir Ágúst Ólafur Ágústsson og Ellert B. Schram gefa ekki kost á sér og ekki heldur framsóknarmennirnir Magnús Stefánsson og Valgerður Sverrisdóttir. Ekki liggur annað fyrir en allir þingmenn Vinstri grænna gefi áfram kost á sér. Hið sama á við um þingmenn Frjálslynda flokksins en reyndar er óvíst hvort Jón Magnússon, sem nýlega hætti í Frjálslyndum, hafi hug á að bjóða sig fram.

Stefnir í endurnýjun á þingi?

Um 15% af þingmönnum hafa lýst því yfir að þeir sækist ekki eftir endurkjöri, hin 85% vilja halda áfram. Endurnýjunin fer annars vegar eftir því hvernig þingmönnum vegnar í prófkjöri og forvali og hins vegar eftir því hvaða fylgi flokkarnir fá í kosningum. Svo er hugsanlegt að nýtt stjórnmálaafl bjóði fram með algjörlega nýjum frambjóðendum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert