Lúðvík Bergvinsson formaður þingflokks Samfylkingarinnar hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér við næstu alþingiskosningar. Hann hefur setið á þingi frá 1995.
Lúðvík segir í tilkynningu: „ Ég ákvað fyrir nokkru að leita ekki eftir endurkjöri í komandi alþingiskosningum, en á Alþingi hef ég átt sæti frá árinu 1995. Fjórtán ár er langur tími á sama vinnustað.
Þau miklu straumhvörf sem orðið hafa í íslensku samfélagi undanfarna mánuði, gera þá sjálfsögðu og eðlilegu kröfu að breytingar verði á skipan Alþingis, enda er þáttur stjórnvalda mikill þegar kemur að ábyrgð á því að fjármálakerfi landsins hrundi.
Ég þakka öllum fyrir þann stuðning og traust sem ég hef notið þann tíma sem ég hef átt sæti á Alþingi. Það eru mikil forréttindi og lærdómur hverjum þeim sem fær að starfa á Alþingi í umboði almennings. Fyrir það vil ég sérstaklega þakka.“