Pétur Blöndal sækist eftir 2. sæti

Pétur Blöndal
Pétur Blöndal mbl.is

Dr. Pétur H. Blöndal, alþingismaður, hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar. Hann sækist eftir 2. sæti í prófkjörinu.

Pétur stundaði nám í raunvísindum við Kölnarháskóla þaðan sem hann lauk doktorsprófi í líkinda- og tryggingarstærðfræði árið 1973. Pétur hefur kennt bæði við háskóla og framhaldsskóla og hann rak Lífeyrissjóð verslunarmanna í 7 ár. Þá var hann einn af stofnendum Kaupþings og rak það í 7 ár.

Pétur var fyrst kjörinn til Alþingis árið 1995 og var formaður efnahags- og skattanefndar frá 2003 til 2009 auk þess að vera sérlegur fulltrúi forseta hins alþjóðlega ÖSE þings í fjármálum.

Í tilkynningu segir: „Sem þingmaður hefur Pétur m.a. flutt frumvörp um flatan tekjuskatt, afnám sjómannaafsláttar, dreifingu kvótans á alla þegna landsins og afskrift hans á löngum tíma hjá útgerðinni og frumvörp um að þingmenn hafi sömu lífeyrisréttindi og almenningur í landinu. Hann hefur unnið að því að stórauka endurhæfingu öryrkja og líta frekar á getu þeirra en vangetu. Þá hefur hann unnið að nýju kerfi greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu sem kemur í veg fyrir há útgjöld langveikra sem eru i núverandi kerfi. Pétur hefur beitt sér fyrir auknu gegnsæi í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum og hefur verið öflugur andstæðingur ríkisábyrgða og útþenslu ríkisins. Hann varaði ítrekað við ýmsum hættumerkjum í atvinnulífinu m.a. hættunni af jöklabréfum, vandamálum sem myndast vegna krosseignatengsla fyrirtækja og að áhættugleði útrásarinnar myndi leiða af sér skell.“

Þau málefni sem Pétur setur nú á oddinn eru:

1. Fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar - „Ég vil nota krafta mína, þekkingu og reynslu til að koma í veg fyrir að Icesave málið og jöklabréfin steypi þjóðinni í áratuga fátækt. Það gagnast engum, síst af öllu þeim sem gera til okkar óbilgjarnar kröfur. Ég er á móti skattahækkunum og tel að gæta verði þess að hér verði áfram öflugt velferðakerfi. Nauðsynlegum sparnaði í ríkisútgjöldum á fyrst og fremst að ná með aukinni skilvirkni en ekki með minni aðstoð við þá sem helst þurfa á henni að halda.“

2. Endurreisn fjármálakerfisins og uppgjör við fortíðina Pétur. - „Ég ætla ekki síður að nýta reynslu mína af fjármálum og þekkingu á bankastarfsemi til þess að setja bankana aftur í gang og þar með atvinnulífið allt og koma þannig í veg fyrir það mikla atvinnuleysi sem við búum við. Atvinnuleysi er eitt mesta böl sem einstaklingar, fjölskyldur og samfélög lenda í. Mjög mikilvægt er að upplýst verði um möguleg lögbrot í efnahagskerfinu í aðdraganda hrunsins og refsað fyrir þau. Ég mun nýta reynslu mína og þekkingu á störfum Alþingis í viðskipta- og skattamálum til að bæta lög og reglur og framkvæmd þeirra að fenginni reynslu af því sem fór úrskeiðis t.d. með því að skerpa á reglum um framvirka samninga og auka gegnsæi og bæta siðferði í starfsemi hlutafélaga.“

3. Þrískipting valdsins með sterkara Alþingi - „Ég tel mjög brýnt og ég mun einbeita mér að því að Alþingi verði sterkara gagnvart ríkisstjórn t.d. með því að þingnefndir semji eða láti semja öll lög sem Alþingi afgreiðir. Ég mun benda á og vinna gegn flokksræði. Einnig þarf að skoða hvort ráðherrar eigi að afsali sér þingmennsku tímabundið og að þingmönnum verði jafnframt fækkað í 51. Ég vil stuðla að endurskoðun á stjórnarskránni með þessi og mörg fleiri markmið í huga."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert