Ragnheiður stefnir á 1. sætið í Suðurkjördæmi

Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir mbl.is

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður, hefur ákveðið að gefa kost á sér til forystu Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi en prófkjör  fer fram hjá flokkunum þann 14. mars. Ragnheiður Elín er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi nú.

„Undanfarnar vikur hefur verið kallað eftir breytingum og endurnýjun í forystusveit flokksins í kjördæminu. Mikilvægt er að nýta þann kraft sem á að endurspeglast í opnum og lýðræðislegum prófkjörum og forsenda þess er að sjálfstæðismenn um allt land hafi val um frambjóðendur. Ég hef verið hvött til þess að færa mig um set og bjóða mig fram til að leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi og hef fundið fyrir miklum stuðningi góðs fólks alls staðar að úr kjördæminu. Ég hef ákveðið að taka þeirri áskorun.

Ég er borin og barnfæddur Keflvíkingur og bjó þar í foreldrahúsum fram yfir háskólanám. Ég  á þar fjölskyldu og vini og þekki því vel til þeirra mála sem skipta miklu máli í kjördæminu. Ég hef mikinn áhuga á að vinna að þeim málum af heilum huga og því er þátttaka í stjórnmálum í Suðurkjördæmi  mikil og spennandi áskorun. Um leið er hún tækifæri fyrir mig til að snúa aftur á heimaslóðir. Ég hlakka til að vinna með sjálfstæðismönnum í Suðurkjördæmi að þeim fjölmörgu brýnu málum sem framundan eru og tilheyra þeirri liðsheild sem mun mynda nýja forystusveit í kjördæminu," að því er segir í tilkynningu.

Nánar um Ragnheiði Elínu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert