Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur gefur kost á sér í 3. – 5. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún er 40 ára, gift Birgi Hermannssyni stjórnmálafræðingi og á
fjögur börn á aldrinum 3ja til 17 ára.
„Ég vil taka þátt í að móta farsælt og sterkt jafnaðar- og lýðræðissamfélag sem einkennist af lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti og sanngirni að norrænni fyrirmynd. Þetta eru mín leiðarljós um leið og ég hafna leið sérhagsmuna, einkavinavæðingar og hjarðhegðunar sem ógna lýðræði og faglegum vinnubrögðum.
Stjórnmálaskoðanir mínar hafa mótast af þátttöku í starfi Samfylkingarinnar og Kvennalistans, störfum fyrir ASÍ og félags- og tryggingamálaráðuneytið og kynnum mínum af sænsku samfélagi. Þar bjó ég í sex ár og lauk magisterprófi í hagfræði frá Uppsalaháskóla eftir að hafa lokið B.A. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands.
Hrun bankakerfisins með tilheyrandi efnahagskreppu hefur leitt til óánægju almennings og vantrausts á stjórnmálamönnum og stjórnsýslu landsins. Við þessu þarf flokkurinn að bregðast með víðtækri uppstokkun og endurnýjun, jafnt á fólki sem starfsháttum.
Ég hef alltaf leitast við að vera trú sannfæringu minni og þann 9. október 2008 sagði ég mig úr bankaráði Seðlabanka Íslands eftir að hafa skorað á bankastjórana að víkja. Markmið mitt var og er að bankinn endurheimti traust eftir hrun fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins. Í kjölfarið hvatti ég einnig til að stokkað væri upp í Fjármálaeftirliti og ríkisstjórn og að gengið yrði til kosninga.
Sem varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík hef ég tekið þátt í öflugu grasrótarstarfi undanfarin ár. Vegna fjölda áskorana og eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína til þessa mikilvæga verkefnis. Í prófkjöri gefst flokksmönnum einstakt tækifæri til að endurnýja flokkinn, styrkja stöðu hans og endurvinna traust kjósenda.“